Samtök byssueigenda vilja herða reglur

Par stendur við Mandalay Bay-hótelið í las Vegas þar sem …
Par stendur við Mandalay Bay-hótelið í las Vegas þar sem árásin var gerð. AFP

Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, hafa óskað eftir „auknum reglugerðum“ varðandi búnað sem er notaður til að árásarrifflar geti skotið hraðar. Árásarmaðurinn í Las Vegas myrti 58 manns og særði tæplega 500 til viðbótar með aðstoð slíks búnaðar.

„Auknar reglur eiga að ná yfir búnað sem er hannaður til að hálfsjálfvirkir rifflar virki eins og sjálfvirkir rifflar,“ sögðu samtökin, að því er BBC greindi frá.

Repúblikanar segjast íhuga að banna slíkan búnað, þrátt fyrir að hafa lengi verið mótfallnir hertum reglum varðandi byssunotkun í Bandaríkjunum.

Fjallað verður um málið á bandaríska þinginu og svo gæti farið að frumvarp verði lagt fram um að banna búnaðinn.

Samtök byssueigenda hvetja þingmenn til að „fara þegar í stað yfir það hvort notkun búnaðarins samræmist lögum“.

„Eftir hina illu og glórulausu árás í Las Vegas verða Bandaríkjamenn að leita eftir svörum til að hægt verði að koma í veg fyrir frekari árásir,“ sögðu Wayne LaPierre og Chris Cox, yfirmenn samtakanna, í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert