Ætluðu að fremja hryðjuverk í New York

Lögreglumenn við Times Square í New York. Myndin er úr …
Lögreglumenn við Times Square í New York. Myndin er úr safni. AFP

Þrír karlmenn hafa verið handteknir vegna gruns um að þeir hafi ætlað að framkvæma hryðjuverkaárásir í New York í Bandaríkjunum, m.a. á Times Square og í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Mennirnir eru sagðir hafa ætlað að fremja ódæðið í nafni Ríkis íslams. 

Fyrirætlanir þeirra voru hins vegar stöðvaðar, m.a. með aðstoð starfsmanns bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) sem dulbjóst og átti í samskiptum við mennina á fölskum forsendum. Frá þessu greina bandarísk yfirvöld.

Einn maður var handtekinn í Bandaríkjunum, annar í Pakistan og sá þriðji á Filippseyjum. Þeir hafa verið ákærðir fyrir að hafa unnið að því að skipuleggja árásirnar. Einn sakborninganna er sagður hafa viljað standa á bak við árás sem gæti verið í líkingu við árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. 

Fram kemur á vef BBC, að mennirnir hafi notað spjallforrit til að skipuleggja árásirnar. 

Fram kemur að mennirnir hafi verið stöðvaðir á síðasta ári með aðstoð starfsmanns FBI sem þóttist vera stuðningsmaður Ríkis íslams og átti í samskiptum við þremenningana. Greint var frá fyrirtætlunum mannanna í gær er saksóknarar upplýstu um ákærurnar á hendur þeim. 

Mennirnir heita Abdulrahman El Bahnasawy, 19 ára kanadískur ríkisborgari, sem var handtekinn í New York. Talha Haroon, 19 ára bandarískur ríkisborgari, sem bjó í Pakistan. Þriðji maðurinn heitir Russell Salic, 37 ára gamall og frá Filippseyjum.

El Bahnasawy var handtekinn í maí í fyrra. Í október játaði hann sök varðandi sjö ákærliði er tengjast skipulagningu hryðjuverkaárásar. Hann bíður nú eftir því að dómur verði kveðinn upp í máli hans.

Haroon var handtekinn í Pakistan í september í fyrra en Salic var tekinn höndum á Filippseyjum í apríl. Mennirnir verða framseldir til Bandaríkjanna. 

Bandaríska dómsmálaráðneytið segir að mennirnir hafi ætla að sprengja sprengju á Times-torgi og í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Þá hafi þeir ætlað að skjóta almenna borgara á ákveðnum tónleikastöðum. 

Þremenningarnir höfðu vonast til að fremja hryðjuverkin á föstumánuði múslima árið 2016, en þeir voru undir áhrifum frá árásunum sem voru gerðar á Bataclan-tónleikastaðinn í París og neðarjarðarlestarkerfið í Belgíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert