Engin ummerki um höfuðhögg

Jens Møller Jen­sen rannsóknarlögregla sem stýr­ir rann­sókn­inni á morði Kim …
Jens Møller Jen­sen rannsóknarlögregla sem stýr­ir rann­sókn­inni á morði Kim Wall. AFP

Höfuð, fótleggir og fatnaður blaðakonunnar Kim Wall fannst í plastpoka í Køge-flóa í gær, föstudag. Pokarnir voru þyngdir með járnhlutum. Engir áverkar voru sýnilegir á höfði Wall. Það passar ekki við sögu Peter Madsen, sem hefur verið í haldi lögreglunnar frá því ágúst, sem segist hafa hent líki hennar frá borði eftir að járnhleri hafi fallið á höfuð hennar. 

Sundurlimaður búkur Wall fannst í ágúst, tæpum tveimur vikum eftir hvarf hennar, einnig í Køge-flóa. Fjölmargir áverkar fundust á kynfærum hennar, samkvæmt réttarmeinarannsókn á líki hennar. Þetta kom fram á blaðamannafundi dönsku lögreglunnar sem fram fór í morgun.  

„Í gærmorgun fundum við plastpoka með fatnaði Kim Wall, nærfötum, sokkabuxum og skóm. Í sama poka fannst hnífur og járnrör til að sökkva pokanum,“ sagði Jens Møller Jen­sen sem stýr­ir rann­sókn­inni.

„Um kvöldmatarleytið fundum við fótlegg og svo annan. Skömmu síðar fundum við höfuðið einnig í plastpoka sem hafði verið þyngdur með ótal málmhlutum,“ sagði Jensen. 

Engin ummerki eru á höfuðkúpunni sem benda til ofbeldis, að sögn Jensen. Ekki er hægt að skera úr um dánarorsök Wall með vissu þar sem lokarannsókn á líki Wall hefur ekki farið fram. Fram að þessu hefur meginþungi rannsóknarinnar beinst að því að finna höfuð Wall. 

Réttarmeinafræðingar voru að störfum í nótt og staðfestu að höfuðið væri af blaðakonunni. 

Madsen hefur alfarið neitað að hafa átt við lík hennar að öðru leyti en að varpa því í sjóinn eftir að Wall hlaut höfuðhögg. Lögreglurannsóknin hefur sýnt að erfðaefni Walls hefði fund­ist und­ir nögl­um Mad­sens. Mynd­bönd hafa fundist á tölvu hans með of­beldis­efni. Þar á meðal morð og limlestingar á kon­um þar sem þær eru pyntaðar og kveikt í þeim. Madsen hefur haldið því fram að hann eigi ekki tölv­una og að fleiri hefðu notað hana. Mynd­bönd­in væru því ekki endi­lega hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert