Mættir aftur til Charlottesville

Breitt hefur verið yfir styttuna af Robert E. Lee, hershöfðingja …
Breitt hefur verið yfir styttuna af Robert E. Lee, hershöfðingja suðurríkjanna, á meðan málaferli standa yfir. AFP

Hvítir þjóðernissinnar mættu aftur til Charlottesville í gærkvöldi til að halda áfram mótmælunum gegn því að stytta af Robert E. Lee, hershöfðingja suðurríkjanna í þrælastríðinu, verði fjarlægð. BBC greinir frá. Síðustu mótmæli þjóðernissinnanna, sem fram fóru í ágúst, enduðu með því að ekið var á hóp fólks með þeim afleiðingum að ein kona lést og a.m.k. 19 slösuðust.

Mótmælendur, með hægri-öfgamanninn Richard Spencer í fararbroddi, eru taldir hafa verið um 40 til 50 talsins og báru þeir kyndla. Meðal þess sem þeir sem mættu í Emanticipation-garðinn við yfirbreidda styttuna af herforingjanum kyrjuðu var: „Suðrið mun rísa á ný“ og „Rússland er vinur okkar.“ Mótmælin stóðu þó ekki lengi yfir, en þeim var lokið um kl. 20 að staðartíma.

Mike Signer, borgarstjóri Charlottesville, segir mótmælin aðra fyrirlitlega heimsókn huglausra nýnasista. Hann segir þá ekki velkomna og biður þá að halda til síns heima. Á meðan ætla bæjaryfirvöld að leita lagalegra leiða til að koma í veg fyrir frekari mótmæli, og biður hann áhugasama um að fylgjast með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert