Fara hugsanlega út án samnings

AFP

Bresk stjórnvöld hafa hafið undirbúning fyrir það að yfirgefa Evrópusambandið án þess að semja um framtíðartengsl landsins við sambandið. Þetta hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir Dominic Raab, dómsmálaráðherra Bretlands.

Fram kemur í fréttinni að áætlanir séu komnar langt á veg komi sú staða upp að samningar náist ekki. Haft ef eftir Raad að þrátt fyrir að öll áhersla sé lögð á að ná samningum verði breskir ráðamenn að gera ráð fyrir öllum möguleikum.

Komið hefur fram í breskum fjölmiðlum að ríkisstjórnin hafi ákveðið að eyrnamerkja háar fjárhæðir þeim möguleika að engir samningar náist við Evrópusambandið og að viðskipti við ríki þess fari því fram samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Viðræður hafa staðið yfir á milli Bretlands og Evrópusambandsins undanfarna mánuði en takmarkaður árangur hefur náðst. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæði á síðasta ári að Bretland skyldi ganga úr sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert