Herragarður Picasso falur fyrir 2,5 milljarða króna

Pablo Picasso stendur við eitt af síðustu verkum sínum árið …
Pablo Picasso stendur við eitt af síðustu verkum sínum árið 1971. AFP

Setur listmálarans Pablo Picasso á frönsku riveríunni verður boðið falt á uppboði á fimmtudaginn fyrir ríflega 20 milljónir evra eða tæpa 2,5 milljarða króna. Listmálarinn frægi eyddi síðustu æviárum sínum í Mougins sem er nálægt borginni Cannes með gott útsýni yfir Miðjarðarhafið. Húsið var reist á 18. öld.  

Picasso lést í húsinu í apríl 1973, 12 árum eftir að hann flutti þangað, ásamt seinni eiginkonu sinni Jacqueline Roque. Eftir lát hans átti Roque í hatrömmum deilum við börn Picasso. Árið 1986 fyrirfór hún sér í húsinu.

Hér á vef Business Insider má sjá myndir af herragarðinum.

Dóttir Picasso Catherine Hutin-Blay seldi fasteignina til Hollendings. Sá lenti í basli með að fjármagna þær endurbætur sem hann fór í á eigninni sem voru meðal annars tennisvöllur, stór sundlaug og bílskúr. Framkvæmdirnar stöðvuðust þegar fjármagnið varð uppurið.  

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu frá því Picasso bjó þar. Það eina sem er í upprunalegri mynd er vinnustofan hans. Þar má enn finna málningarslettur eftir vinnu listmálarans. Engin verk Picasso fylgja húsinu. 

Áður en Picasso eignaðist húsið var það í eigu írskrar fjölskyldu sem átti Guinness bjór framleiðsluna. Á stríðsárunum var Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, tíður gestur þar og málaði myndir á jarðhæð hússins.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert