Hætt við ákærur gegn Macchiarini

Ljósmynd frá barkaígræðslu á Karólínskasjúkrahúsinu.
Ljósmynd frá barkaígræðslu á Karólínskasjúkrahúsinu. Karolinska Institut

Mál sænska ákæruvaldsins á hendur ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini hefur verið fellt niður. Macchiarini hafði verið ákæður fyrir að vera valdur að dauða þriggja sjúklinga sem hann gerði plastbarkaaðgerð á á Karólínska sjúkrahúsinu.

Sænska ríkisútvarpið SVT greindi í dag frá því að saksóknari hefði fellt niður ákærur á fjórum málum gegn Macchiarini, þar sem að ekki væri hægt að sanna að plastbarkinn hefði valdið dauða sjúklinganna, né að hann hafi viljandi valdið þeim skaða.

Mál Macchi­ar­ini þykir eitt stærsta hneykslis­mál sem hef­ur komið upp á heil­brigðis­sviðinu í Svíþjóð und­an­far­in ár, en í ljós kom að hann hafði ekki gert til­raun­ir á dýr­um né held­ur fengið nauðsyn­leg leyfi fyr­ir því að fram­kvæma aðgerðir sem þær sem gerðar voru.

Auk sjúk­ling­anna sem Macchi­arini gerði plast­barkaaðgerðir á í Svíþjóð gerði hann fimm slík­ar aðgerðir í Rússlandi. Af þeim eru fjór­ir sjúk­ling­ar látn­ir. Það þýðir að af átta sjúk­ling­um eru sjö látn­ir. 

Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini hefur verið sakaður um vafasöm vinnubrögð …
Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini hefur verið sakaður um vafasöm vinnubrögð í kringum barkaígræðslurnar.

Ákæran gegn Macchiarini var vegna dauðsfalla þriggja sjúklinga hans, Eritíreumanninum And­emariam Tek­les­en­bet Beyene, sem fór í aðgerðina fyrir tilstylli íslenskra lækna, tyrkneskrar konu og bandarísks karlmanns. Auk dauðsfallanna þá hafði Macchiarini einnig verið ákærður fyrir að valda alvarlegu líkamstjóni í fjórðu skurðaðgerðinni sem einnig var framkvæmd á Karólínska sjúkrahúsinu.

Macchiarini hefur alltaf neitað ásökununum og fullyrðir að gjörðir sínar hafi stýrst af löngun til að hjálpa verulega veiku fólki.

Saksóknari tilkynnti í dag að hætt hafi verið við réttarhöld gegn Macchiarini vegna þess að erfitt muni reynast að fá hann dæmdan, þó saksóknaraembættið telji ljóst að Macchiarini hafi gerst sekur um vanrækslu og að taka of mikla áhættu. Hvorki nauðsynlegar tilraunir né vísindarannsóknir hafi legið að baki barkaígræðslunum þremur.

„Það leikur enginn vafi á að notkun gervibarkans felur í sér vanrækslu,“ hefur SVT eftir saksóknaranum Anders Tordai.

Leitað hafi verið til 80 sérfræðinga vegna málsins bæði í Svíþjóð og erlendis og m.a. hafi verið rætt við nokkra lækna sem tóku þátt í aðgerðunum eða komu að umönnun sjúklinganna eftir á.

Saksóknarinn Jennie Nordin, sem fór fyrir rannsóknarteyminu, segir sönnunarbyrðina hafa orðið erfiðari af því að læknarnir hafi allir haft skiptar skoðanir á málinu. „Það þýðir að sönnunarbyrðin var orðin mjög erfið,“ segir Nordin.

Það sé því sitt mat að nú sé búið að fullreyna alla möguleika á að sakfella Macchiarini

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert