Ræða framtíð Weinstein

Boðað hefur verið til neyðarfundar hjá Óskarsakademíunni varðandi mál kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Ræða á framtíð hans en 81 kvikmynd sem fyrirtæki hans hafa framleitt hefur hlotið Óskarsverðlaun.

Í tilkynningu frá Óskarsakademíunni segir að hún muni hittast á fundi á laugardag og ræða ásakanir á hendum Weinstein og hvort grípa eigin til aðgerða. Bafta, breska kvikmyndaakademían, hefur þegar svipt Weinstein aðild að samtökunum.

Weinstein, sem er sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart fjölmörgum ungum konum, neitar ásökunum. Áreitnin á að hafa staðið yfir áratugum saman. Lögreglan í New York hefur staðfest við BBC að hún sé að reyna að hafa uppi á manneskju vegna ásakana í garð Weinstein frá árinu 2004. Ekki fékkst meira uppgefið um málið hjá lögreglunni, samkvæmt frétt BBC.

Hillary Clinton segir í viðtali við CNN að hún ætli að gefa peningana sem Harvey Weinstein setti í kosningabaráttu hennar í bandarísku forsetakosningunum í fyrra til góðgerðarmála.  Clinton segir að hún hafi fengið áfall þegar hún heyrði fyrst af ásökunum. Fyrst í New York Times og svo í The New Yorker.  

Hún segir að fram hafi komið hlið á Weinstein sem hún hafi ekki haft hugmynd um að væri til. Áfallið hafi verið algjört.

Fjölmargar þekktar leikkonur hafa stigið fram og lýst samskiptum sínum við Weinstein á árum áður. Meðal þeirra eru Gwyneth Paltrow og Angelina Jolie.

Breska leikkonan og fyrirsætan Cara Delevingne er ein þeirra sem steig fram í gær. En hún segir að Weinstein hafi reynt að kyssa hana þegar hún reyndi að yfirgefa hótelherbergi hans.  

Hvað vissi stjórnin

Saksóknaraembættið í New York reyndi í gær að verja ákvörðun þess um að rannsaka ekki frekar ásakanir á hendur Weinstein eftir að kona kærði framkomu hans til embættisins árið 2015. Í tilkynningu kemur fram að ekki hafi verið nægjanlegar sannanir fyrir því að Weinstein hafi brotið gegn henni með saknæmum hætti. 

Ítalska fyrirsætan Ambra Battilana Gutierrez, 22 ára, leitaði til lögreglunnar í New York og sakaði Weinstein um að hafa káfað á henni. Hún samþykkti að hitta framleiðandann aftur og vera með hljóðnema á sér. Saksóknari segir að lögreglan hafi komið þessu á án vitundar saksóknaraembættisins.

Saksóknara var ekki veittur möguleiki á því áður en Gutierrez fór og hitti Weinstein að nýju að ráðleggja henni um hvað væri nauðsynlegt að kæmi fram svo hægt væri að sanna að um saknæmt athæfi væri að ræða.

Hræðileg hljóðupptaka hafi ekki verið nægjanleg sönnun á því að um saknæmt athæfi væri að ræða samkvæmt lögum New York ríkis.

Á upptökunni má heyra Weinstein biðja Gutierrez um að koma inn í hótelherbergi hans. Hún spyr hann hvers vegna hann hafi snert brjóst hennar daginn áður. Hann biðst afsökunar og segir að það muni ekki gerast aftur. 

En það er ekki bara ósæmileg hegðun Weinstein sem menn velta fyrir sér þessa dagana heldur einnig viðbrögð fyrirtækja hans og lykilstjórnenda. Á þriðjudag héldu bróðir hans, Bob Weinstein, og forstjóri Weinstein Company, David Glasser, því fram á myndfundi með starfsfólki fyrirtækisins að þeim væri brugðið og þeir hafi ekki vitað af greiðslum til kvenna sem kvörtuðu yfir hegðun hans. 

Stuttu síðar héldu Bob Weinstein og þrír aðrir stjórnarmenn Weinstein Company, sem Weinstein-bræðurnir stofnuðu á sínum tíma, því fram að nýjar ásakanir á hendur Weinstein hafi komið þeim gjörsamlega í opna skjöldu. 

En er það rétt? Í New York Times kemur fram að David Boies, sem var lögmaður Weinstein þegar hann fór yfir samning Weinstein við fyrirtækið árið 2015, hafi sagt í viðtali að bæði stjórn og stjórnendur Weinstein Company hafi vitað af þremur eða fjórum sáttagjörðum við konur út af framferði Weinstein í þeirra garð.

mbl.is

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Ræstingavagn
Til sölu 2 Ræstingavagnar fást báðir fyrir kr: 8,900,- Voru keyptir hjá Rekstrar...
Gámasliskjur
Eigum nokkrar nýjar gámasliskjur fyrir 6000 kg burðargetu. Eru á lager og til a...
 
Vantar þig trésmið
Iðnaðarmenn
Vantar þig trésmið? Úrræðagóður húsa...
Aðalfundur isnic 2018
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur ISNIC 2018 Aðalfundur Inter...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, for...
Félagsstarf aldraðra
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, jóg...