Fjöldi látinna fer hækkandi

Frá skógareldunum í Kaliforníu.
Frá skógareldunum í Kaliforníu. AFP

Fjöldi látinna í skógareldunum í Kaliforníu í Bandaríkjunum er kominn í 32 samkvæmt frétt AFP og hefur hækkað um þrjá frá því í gær. Þar segir að slökkviliðsmenn hafi í dag náð nokkrum árangri í baráttunni við eldana. Hins vegar er það áhyggjuefni hversu mjög hefur bætt í vindinn.

Haft er eftir embættismönnum í fréttinni að langur vegur sé frá því að tekist hafi að ná tökum á ástandinu. Árangur hafi þó náðst og takast muni að lokum að sigast á því. Rúmlega 9 þúsund slökkviliðsmenn hafa barist við 17 stóra skógarelda sem lagt hafa í auðn um 89.700 hektara lands frá því að þeir komu upp á sunnudaginn.

AFP

Slökkviliðsstjóri Kaliforníu, Ken Pimlott, segir að það gæti tekið vikur að komast að því hvað hefði valdið skógareldunum sem eru þeir mannskæðustu í sögu ríkisins. Mannskæðustu skógareldarnir í Kaliforníu fram að því urðu 1933 og 1991.

Lögreglustjórinn í Sonoma-sýslu, Rob Giordano, segir í fréttinni að unnið sé að því að hafa uppi á fólki sem ættingjar hafa látið vita að sé saknað. Tilkynnt hefur verið að 1.308 manns væri saknað en af þeim hafa 1.052 fundist til þessa.

Fram kemur að af þeim 32 sem vitað er að hafi látið lífið hafi 18 látist í Sonoma-sýslu. Mikill fjöldi fólks hefur verið fluttur á brott vegna eldanna frá nokkrum bæjum á svæðinu og hafa hundruð þegar glatað heimilum sínum. Fleiri en 3.500 heimili og fyrirtæki hafa eyðilagst vegna eldanna í Kaliforníu-ríki segir ennfremur í fréttinni.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert