Troða flóttafólki í vélarrúmið

Fólki er troðið ofan í vélarrúmið á meðan ekið er …
Fólki er troðið ofan í vélarrúmið á meðan ekið er yfir landamærin. Europol

Fólk á flótta lætur ekki herta landamæragæslu stöðva sig og smyglarar ekki heldur enda hafa þeir ekki áhuga á að missa þessa tekjulind. Samkvæmt Europol er nýjasta aðferðin sú að troða flóttafólki í vélarrúm bifreiða rétt áður en komið er að landamærum.

Í nýrri skýrslu Europol segir að flóttafólkinu sé komið fyrir í rýminu á milli vélarinnar sjálfrar og vélarhlífarinnar.

„Aðferðin er gríðarlega hættuleg og líf flóttafólksins/farandfólks í mikilli hættu,“ segir i nýrri samantekt Europol.

En vegna þess hversu erfitt er að fara á milli landa þá finna smyglarar alltaf nýjar og nýjar leiðir til þess að smygla farandfólki og flóttafólki (migrants and refugees) inn til ríkja Evrópusambandsins.

Nokkrar nýjar leiðir og aðferðir smyglara eru nefndar til sögunnar:

  • Ný leið yfir Svartahaf - einkum frá Tyrklandi til Rúmeníu
  • „Tómstunda-farartæki“ (aðallega skútum) notuð til þess að smygla flóttafólki frá Tyrklandi til Ítalíu.
  • Evrópa er að verða viðkomustaður farandfólks sem er að reyna að komast til Bandaríkjanna og Kanada.
  • Mikil aukning er í komu flóttafólks til Spánar þar sem það hefur farið yfir vesturhluta Miðjarðarhafs. 
  • Flóttafólk falið í loftlausum gámum og flutningabílum eða í vélarrúmi bifreiða.

Evrópska lögreglan segir að þessar nýju leiðir og aðferðir séu oft enn hættulegri en þær sem fyrir voru og enn meiri líkur á því að fólk deyi á flóttanum en hingað til hefur þekkst.

Þrátt fyrir nýjar aðferðir er algengast að fólki sé smyglað með flutningabílum. Oft yfirfullum þar sem loftlaust er og ekið á ofsaharða til þess að koma í veg fyrir að lögreglan geti stöðvað för þeirra. 

Yfirleitt er því þannig farið að flóttafólkið ferðast með smyglurunum nánast alla leið og það er aðeins á meðan farið er yfir sjálf landamærin sem fólki er troðið í vélarrúm bifreiða. Fyrir flóttann greiðir hver flóttamaður smyglaranum um sjö þúsund evrur, 872 þúsund krónur, fyrir fargjaldið frá Tyrklandi til Austurríkis - aðra leið. Sem skýrir hvers vegna svo margir glæpamenn taka þátt í smygli á fólki.

AFP

Rob Wainwright, framkvæmdastjóri Europol, segir að smygl á fólki á flótta er orðin stór og hættuleg atvinnugrein í Evrópu. Á sama tíma og yfirvöld þrýsta á aukið eftirlit eru glæpahópar farnir að grípa til örvæntingarfullra leiða til þess að smygla fórnarlömbunum yfir landamæri, oft á lífshættulegan hátt. 

Hann segir að Europol veiti stjórnvöldum ríkja ESB aðstoð við eftirlit með smygli á fólki en á sama tíma snúist baráttan um að koma í veg fyrir þessi tilfinningasnauðu viðskipti. 

Smyglarar nota allar mögulegar leiðir til þess að koma flóttafólki …
Smyglarar nota allar mögulegar leiðir til þess að koma flóttafólki yfir landamæri. Europol
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert