41 látinn í skógareldum í Kaliforníu

Leit stendur enn yfir að fórnarlömbum skógareldanna sem geisað hafa í Kaliforníu undanfarið og er tala látinna komin upp í 41 hið minnsta.

Rúmlega 200 manns er enn saknað, en átta dagar eru nú frá því að skógareldarnir kviknuðu í vínræktarhéruðunum Sonoma og Napa og virðist sem slökkviliðsmenn séu nú að ná tökum á eldinum.

Björgunarsveitir hafa nýtt sér líkhunda til að finna fórnarlömb eldsins sem breiddi svo hratt úr sér að íbúar á sumum stöðum höfðu aðeins nokkrar mínútur til að að flýja heimili sín.

Alls var tilkynnt um að 1.643 manns væri saknað í Sonoma sýslu, en 1.420 þeirra hafa nú gefið sig fram að sögn yfirvalda.

Eyðileggingin í Sonoma er mikil og eyðilögðust m.a. 3.000 heimili …
Eyðileggingin í Sonoma er mikil og eyðilögðust m.a. 3.000 heimili í borginni Santa Rosa í eldunum. AFP

Talið er að það geti tekið fleiri vikur að bera kennsl á lík sumra þeirra sem hafa látist, lítið sé eftir af þeim nema „aska og bein“ að sögn yfirvalda. Margir þeirra sem létust er eldra fólk á áttræðis-, níræðis- og tíræðisaldri. Þá eyðilögðust um 3.000 heimili í borginni Santa Rosa í eldunum og urðu heilu hverfin í borginni, þar sem 175.000 manns búa, eldinum að bráð.

AFP segir íbúa hafa sagt átakanlegar sögur af því að hafa hoppað út í sundlaugar og dvalið tímunum saman í köldu vatninu á meðan eldurinn fór yfir.

Brunavarnaryfirvöld í Kaliforníu segja 11.000 slökkviliðsmenn vinna að því að ráða niðurlögum eldanna, en sumir slökkviliðsmannanna komu alla leið frá Ástralíu til að taka þátt í slökkvistarfinu.

Enn loga eldar á 14 stöðum, en þegar hafa brunnið um 86.200 hektarar lands, en vel hefur þó gengið í dag að ná stjórn á eldunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert