Íraski herinn tekur yfir Kirkuk

Íbúar safnast saman í útjaðri Kirkuk er hersveitir Írakshers kom …
Íbúar safnast saman í útjaðri Kirkuk er hersveitir Írakshers kom að borginni í dag. AFP

Íraski stjórnarherinn hefur nú náð miðborg Kirkuk á vald sitt að því er BBC hefur eftir íbúum borgarinnar. Stjórnarherinn hafði áður náð mikilvægum stöðum í borginni úr höndum uppreisnarmanna Kúrda.

BBC hefur eftir vitnum að þau hafi séð hersveitirnar taka yfir héraðsstjórnarbyggingar í Kirkuk. Áður hafði verið greint frá átökum suður af borginni og að stjórnarherinn hefði náð lykilbyggingum utan borgarinnar á sitt vald, m.a. olíu og gasframleiðslusvæðum hins ríkisrekna olíufyrirtækis. Þúsundir íbúa flúðu á brott frá Kirkuk.

Þrjár vikur eru frá því að íbúar Kúrdistan héraðsins héldu umdeilda kosningu um sjálfstæði héraðsins.

Kirkuk er ekki hluti af hinum íraska hluta Kúrdistan, en kúrdum úr hópi borgarbúa var engu að síður heimilt að taka þátt í kosningunni. Mikil meirihluti íbúa á svæðunum, sem eru undir stjórn kúrda, kaus með sjálfstæði.

Sagði Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak, um kosninguna að hún bryti gegn stjórnarskrá landsins. Í yfirlýsingu frá al-Abadi í dag sagði að aðgerðirnar í Kirkuk væru nauðsynlegar til að „vernda sameiningu landsins sem væri á hættu að klofna í sundur“ vegna kosninganna.

„Við hvetjum alla íbúa til að sýna hetjulegum hersveitum okkar samstöðu,“ sagði í yfirlýsingunni.

Héraðsstjórnin í Kúrdistan sakaði ráðamenn í Bagdad um „tilefnislausri árás“ og sögðu þeir Peshmerga, uppreisnarsveitir kúrda, munu halda áfram að verja Kúrdistan, íbúa þess og hagsmuni.

Hersveitir Íraksher aka framhjá olíuframleiðslusvæði, en herinn náði lykilbyggingum ríkisrekna …
Hersveitir Íraksher aka framhjá olíuframleiðslusvæði, en herinn náði lykilbyggingum ríkisrekna olíufyrirtækisins á sitt vald fyrr í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert