Tvö orð sem segja allt

#MeToo (#Ég líka).
#MeToo (#Ég líka). AFP

Tvö einföld orð, #MeToo (#Ég líka) eru líklega þau orð sem oftast hefur verið deilt á Twitter undanfarinn sólarhring. Um er að ræða herferð gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. 

Stór hluti þeirra sem deila myllumerkinu á samfélagsmiðlum eru konur sem greina frá því að þær hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða kynferðislegu ofbeldi. 

Í gær greindi leikkonan Alyssa Milano frá því á Twitter að ef allar konur sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi myndu skrifa færslu undir myllumerkinu #MeToo kæmi sennilega í ljós hversu algegnt vandamálið er.

Leikkonan Alyssa Milano hratt af stað herferðini #MeToo.
Leikkonan Alyssa Milano hratt af stað herferðini #MeToo. AFP

„Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi skrifaðu ég líka sem svar við þessari færslu á Twitter,“ skrifar hún.

CNN segir að herferðin hafi byrjað sem svar við máli kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.
AFP fréttastofan greinir frá því að um 27 þúsund manns hafi svarað kalli Milano frá því í gærkvöldi.
Fjölmargar sárar persónulegar sögur hafa fylgt í kjölfarið og þykja til marks um vandamál sem nær langt út fyrir heim fræga og ríka fólksins í Hollywood heldur er þetta hluti af daglegu lífi kvenna út um allan heim.

Margar þeirra kvenna sem tjá sig núna eru að greina frá ofbeldinu í fyrsta skipti. Ofbeldi sem þær hafa gengið í gegnum og skammast sín fyrir -  hafa tekið á sig sökina fyrir ofbeldismanninn. Aðrar hafa látið nægja að svara með færslunni #MeToo."

Sumar kvennanna hafa verið beittar ofbeldi af hálfu ættingja þegar þær voru börn eða unglingar. Ofbeldi af hálfu einhvers sem þær treystu. Enginn trúði þeim þegar þær sögðu frá. „Ég vildi óska þess að muna hver ég var áður#MeToo," skrifar Rosey.

„Beitt kynferðislegu ofbeldi af einum úr fjölskyldunni. Nauðgað sem barn og sem fullorðin. Varð fíkniefnafíkill en hafði betur. Aldrei gefast upp. Ég er hér #MeToo,“ skrifar Amy Christensen í færslu á Twitter.

„Beitt kynferðislegu ofbeldi af herlækni á Lackland herstöðinni. 1973," skrifar DebiDay.

„Ég líka. Ég tjáði mig og hvað lærði ég á því. Það að enginn, bókstaflega enginn hlustaði og veitti aðstoð,“ skrifar Lisa Omlid.

Fjölmargir karlmenn tjá sig einnig og lýsa yfir stuðningi við herferðina. 
mbl.is