Pyntaður og seldur í þrældóm í þrígang

Hann var pyntaður, seldur í þrældóm í þrígang og er enn í dag ofsóttur af minningum um að hafa séð frænda sinn drukkna. Átján ára gamli Bangladessbúinn Khaled Hossain óttast að hann muni aldrei jafna sig á þeim áföllum sem hann varð fyrir á leið sinni til Evrópu.

Þó að hundruð þúsunda rohingja-múslima flýi nú til Bangladess frá Búrma liggur straumur margra Bangladessbúa yfir til Evrópu. Margir þeirra óttast að landið geti ekki tekið við fleirum og telja betra líf bíða annars staðar.

Sérfræðingar hafa raunar varað við því að flóttamannastraumurinn frá Búrma reyni verulega á innviði Bangladess og að í kjölfarið muni enn fleiri Bangladessbúar leggja í þá hættuför að leita betra lífs annars staðar.

Khaled Hossain segist þurfa að lifa með dauða frænda síns …
Khaled Hossain segist þurfa að lifa með dauða frænda síns það sem eftir er. AFP

Ég verð að lifa með dauða hans það sem eftir er

Líkt og tugir þúsunda annarra Asíubúa sem vilja til Evrópu fór Hossain til Líbýu þar sem hann ætlaði að reyna að komast sjóleiðina yfir til Ítalíu.

„Ég var svo spenntur. Innan nokkurra klukkutíma yrði ég kominn til Ítalíu og fjárhagsáhyggjur fjölskyldu minnar yrðu að baki. Ég hélt að þá gæti ég sannað mig verðugan í augum lamaðs föður míns,“ sagði Hossain við AFP-fréttastofuna.

Þess í stað eru margir hælisleitenda seldir í þrældóm áður en þeir komast að höfninni og þeir sem komast um borð í bát lifa ekki allir ferðina af, eins og ungur frændi Hossains. 

„Ég er yfirkominn af sektarkennd,“ sagði Hossain sem nú hefur snúið niðurbrotinn aftur til Bangladess. „Ég verð að lifa með dauða hans það sem eftir er.“

Rúmlega hundrað manns var troðið í litla bátinn sem Hossain og Farid frændi hans sigldu með frá Líbýu. Margir þeirra voru frá ríkjum Afríku, en tugir komu þó einnig úr heimabæ Hossains Beanibazar og öðrum stöðum í Bangladess. 

Hælisleitendur koma aftur að bryggju í Líbýu eftir að þeim …
Hælisleitendur koma aftur að bryggju í Líbýu eftir að þeim var bjargað úr gúmmíbát sem átti að flytja þá til Ítalíu. AFP

Tæmdu bensínbrúsa til að nota sem flothylki

Þremur klukkustundum eftir að 30 feta langur báturinn lagði upp í för sína bilaði hann og tók að sökkva. Hossain minnist örvæntingarinnar sem greip um sig. Ungur Bangladessbúi kramdist í atganginum og margir stukku í sjóinn og sáust aldrei framar. Nokkrir tæmdu bensínbrúsa í botn bátsins í von um að geta notað brúsana sem flothylki.

„Fætur okkar brunnu þegar þeir dýfðust í bensínið,“ útskýrir hann og segir Farid hafa stokkið frá borði til að flýja brunann. Farid sá skip bera við sjóndeildarhringinn og reyndi að synda að því eftir björgun. Hann lifði ekki af. „Ég sá líflausan líkama hans fljóta í sjónum,“ segir Hossain.

Rúmlega 2.700 manns hafa dáið það sem af er þessu ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu. Bangladessbúar eru þeir fjölmennustu í hópi þeirra sem bjargað hefur verið samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna.

Ala Mia missti son sinn Imran, er hann reyndi að …
Ala Mia missti son sinn Imran, er hann reyndi að komast yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu. AFP

Seldur í þrígang

Líbýskir glæpamenn björguðu Hossain úr sjónum og hann vann næstu þrjá mánuði fyrir þá sem þræll á byggingasvæðum.

Hann var seldur í þrígang hið minnsta og faðir hans, sem er lamaður eftir heilablæðingu, greiddi andvirði 12.000 dollara til að fá hann látinn lausan.

„Við vorum pyntaðir og mörgum var nauðgað á meðan þeim var ógnað með byssu,“ rifjar Hossain upp.

Íbúum Bangladess hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og atvinnutækifærum íbúa hefur að sama skapi fækkað.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 11.000 Bangladessbúar lagt í Evrópuför í gegnum Líbýu  frá því í júní í fyrra. Sumir segja töluna enn hærri og að allt að 30.000 manns hafi lagt í þessa hættuför.

Rohingja-múslimar flýja frá Búrma yfir til Bangladess. Margir óttast að …
Rohingja-múslimar flýja frá Búrma yfir til Bangladess. Margir óttast að flóttamannastraumnum fylgi aukið atvinnuleysi og að tækifærin bíði frekar í Evrópu. AFP

Sögur smyglara freista margra að leita gæfunnar

Ástandið kann svo að versna enn frekar með þeirri hálfri milljón rohingja sem flúið hafa til Bangladess frá því í ágúst á þessu ári. Yfirvöld í Bangladess hafa tekið stór landsvæði í suðausturhluta landsins og ætla það undir byggð rohingja, sem sumir segja verða stærstu flóttamannabúðir heims.

Jalal Uddin Sikder sérfræðingur í málum hælisleitenda segir að ef yfirvöld í Bangladess finni ekki raunhæfa lausn á flóttamannavandanum þá muni þau auka enn frekar á straum Bangadessbúa úr landi og sögurnar sem smyglarar segi freisti margra að leita gæfunnar.

„Þeir segja atvinnulausum ungmennum sögur af velgengni og skapa þrýsting á fjölskyldur. Ein eða tvær sögur af drukknun eða mannráni skipta ekki lengur máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert