Laus úr haldi en flutt á sjúkrahús

Fjölskyldan er laus úr prísundinni.
Fjölskyldan er laus úr prísundinni. Skjáskot/Youtube

Bandarísk kona sem, ásamt eiginmanni og þremur börnum, var bjargað úr höndum Talibana í síðustu viku, hefur verið flutt á sjúkrahús. Eiginmaður konunnar, Kanadamaðurinn Joshua Boyle, sagði AP frá þessu í tölvupósti. Hún hafi verið lögð inn á mánudag. „Konan mín hefur gengið í gegn um helvíti og ég einbeiti mér núna að henni,“ sagði hann.

The Guardian greinir frá þessu. Fjölskyldunni var bjargað síðastliðinn miðvikudag, eftir að hafa verið í haldi talibana í fimm ár. Á þeim tíma eignuðust þau þrjú börn. Hjónunum var rænt á bakpokaferðalagi í Afganistan árið 2012, þegar konan, Caitlan Coleman, gekk með fyrsta barn þeirra hjóna undir belti.

Frétt mbl.is: 5 manna fjölskyldu bjargað frá Talibönum

Hjónunum var bjargað í aðgerðum nærri landamærum Afganistan, eftir að vísbending barst frá Bandaríkjaher.

Misstu nýfætt barn

Boyle sagði þegar fjölskyldan lenti á flugvelli í Toronto á föstudag að Talibanarnir hefðu myrt nýfætt stúlkubarn þeirra á meðan vistinni stóð og nauðgað konu sinni. Hann sagði síðar við CBC að um þvingaða fóstureyðingu hafi verið að ræða. Talibanar hafa sjálfir lýst því yfir að konan hafi misst fóstur.

Boyle sagði við AP í gær að þau hefðu ákveðið að eignast fleiri börn jafnvel þó þau væru í haldi Talibana. Þau hafi alltaf ætlað að eignast mörg börn. Þau hafi ákveðið að „gera það besta úr aðstæðunum“ og hefja barneignir af fullum þunga, til að vera ekki á byrjunarreit þegar þau kæmust heim. „Okkur var haldið í gíslingu og við höfðum mikinn frítíma. Við vildum alltaf eignast eins mörg börn og við gætum og vildum ekki sóa tímanum. Cait er á fertugsaldri og klukkan tifar,“ sagði hann. Börnin eru nú fjögurra, tveggja og hálfs árs gömul.

Reið út í tengdasoninn

Foreldrar Coleman hafa sagt að þau séu himinlifandi yfir því að fjölskyldan sé laus úr haldi en að þau séu reið í garð tengdasonar síns, fyrir að hafa farið með dóttur þeirra til Afganistan. Það sé óforsvaranleg ákvörðun að fara með ólétta konu á jafnhættulegar slóðir.

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvers vegna Coleman þurfti á sjúkrahús.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert