1 af hverjum 6 deyr af völdum mengunar

Reykur frá verksmiðjum í Sofiu í Búlgaríu liðast hér til …
Reykur frá verksmiðjum í Sofiu í Búlgaríu liðast hér til lofts. Banvænasta gerð mengunar, og sú sem ber ábyrgð á um tveimur þriðju hlutum mengunartengdra dauðsfalla, er loftmengunin. AFP

Andlát níu milljóna manna mátti rekja til mengunar árið 2015. Jafngildir það einu af hverjum sex dauðsföllum samkvæmt skýrslu sem birt verður í læknatímaritinu Lancet á morgun.

Tæplega 92% dauðsfallanna áttu sér stað í löndum þar sem tekjur fólks eru lágar eða í meðallagi og er loftmengun einn helsti sökudólgurinn og átti hún þátt í dauða 6,5 milljóna manna. Tæpur helmingur þeirra sem létust voru íbúar tveggja landa – Indlands og Kína.

Í þeim löndum þar sem mikil iðnvæðing hefur átt sér stað á undanförnum árum, ríkjum á borð við Indland, Pakistan, Kína, Bangladess, Madagaskar og Kenía, mátti tengja mengun við dauða fjórðungs þeirra sem létust.

Mengun mikil grúfir yfir París á þessari mynd og hverfur …
Mengun mikil grúfir yfir París á þessari mynd og hverfur helsta kennileiti hennar, Eiffelturninn, bókstaflega í óhreinindaský. mbl.is/afp

Ógnar grundvallarmannréttindum

„Mengun og sjúkdómar henni tengdir hafa oftast áhrif á þá sem eru fátækir og valdalitlir og fórnarlömbin eru oftast varnarlaus og geta lítið látið í sér heyra,“ sagði Karti Sandilya, einn höfunda skýrslunnar, sem starfar hjá Pure Earth-samtökunum.

„Af þessum sökum ógnar mengun grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs, heilsu og velferðar, vinnuöryggi, sem og öryggi barna og þeirra sem varnarlausastir eru.“

Efnahagslegur kostnaður dauðsfalla og sjúkdóma tengdum mengun er einnig mestur í þróunarríkjunum og er hann árlega metinn á andvirði um 4,6 trilljónir dollara. 

„Hlutfallslega fara um 8,3% af heildartekjum ríkja þar sem íbúar hafa lágar tekjur í kostnað vegna mengunartengdra dauðsfalla og sjúkdóma, á meðan kostnaðurinn nemur um 4,5 hjá efnameiri þjóðum,“ segja höfundar skýrslunnar.

Vatnsmengun annar stærsti sökudólgurinn

Auk hreinnar eitrunar veldur mengun einnig fjölda banvænna sjúkdóma á borð við hjartasjúkdóma, heilablóðfall, lungnakrabba og króníska lungnasjúkdóma.

Banvænasta gerð mengunar, og sú sem ber ábyrgð á um tveimur þriðju hlutum mengunartengdra dauðsfalla, er loftmengunin.

Til loftmengunar telst mengun frá verksmiðjum, bílaútblástur og mengun innandyra …
Til loftmengunar telst mengun frá verksmiðjum, bílaútblástur og mengun innandyra af völdum bruna frá trjábolum, viðarkolum, kolum, þurrkuðum dýraskít og svo bruni fyrir hitun og eldamennsku. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Til loftmengunar telst mengun frá verksmiðjum, bílaútblástur og mengun innandyra af völdum bruna frá trjábolum, viðarkolum, kolum, þurrkuðum dýraskít og svo bruni vegna hitunar og eldamennsku.

Vatnsmengun var annar stærsti sökudólgurinn og má rekja dauða 1,8 milljóna til vatnsmengunar. Í þriðja sæti var mengun á vinnustað, m.a. vegna nálægðar við eiturefni og krabbameinsvaldandi efni, og var hún tengd dauða 0,8 milljóna manna að því er segir í skýrslunni. Meðal þeirra sjúkdóma sem má rekja til eitrunar á vinnustað eru lungnasjúkdómar hjá kolanámustarfsmönnum, krabbamein í blöðruhálsi hjá verkamönnum sem starfa við fatalitun og lungnakrabbi af völdum nálægðar við asbest.

„Blýeitrun var tengd 0,5 milljónum dauðsfalla sem voru til komin vegna hás blóðþrýstings, nýrnabilunar og hjarta- og æðasjúkdóma,“ segir í skýrslunni.

Pamela Das og Richard Horton, ritstjórar Lancet, segja skýrsluna hafa borist á „áhyggjutímum, þegar Umhverfisstofnun Bandaríkjastjórnar, undir stjórn Scott Pruitt, er að grafa undan núverandi umhverfislöggjöf.“

Þessar nýjustu upplýsingar, bættu þau við „ættu að vera ákall á aðgerðir.“

„Mengun er barátta sem hægt er að sigra [...] Kynslóðir dagsins í dag og framtíðar eiga skilið mengunarlausan heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert