Handtóku 108 barnaníðinga

Rannsóknin beindist upphaflega að einstaklingum sem taldir voru deila barnaklámi …
Rannsóknin beindist upphaflega að einstaklingum sem taldir voru deila barnaklámi sín á milli, en eftir að hald hafði verið lagt á tugi tölva, síma, harðar diska og geisladiska komust rannsakendur að því að hópurinn var einnig að framleiða efni og dreifa á netinu. mbl.is/Golli

Brasilíska lögreglan hefur handtekið 108 manns í stærstu aðgerð lögreglu í Suður-Ameríku gegn barnaníðingum.

Voru hinir grunuðu handteknir í 24 fylkjum landsins, sem og í höfuðborginni Brasilíu, að því er BBC greinir frá.

Dómsmálaráðherrann Torquato Jardim sagði þá sem hneppta voru í varðhald hafa tilheyrt barnaníðshring sem deildi klámfengnum myndum af börnum í gegnum tölvur og síma. Hafa rannsakendur fundið rúmlega 150.000 skrár með óhugnanlegu myndefni sem notendur nálguðust í gegnum dulnetið.

Handtökurnar eru afrakstur sex mánaða rannsóknar sem evrópsk og bandarísk innflytjendayfirvöld tóku þátt í.

Meðal þeirra sem hafa verið handteknir í tengslum við málið eru fyrrverandi lögreglumenn, ríkisstarfsmenn og starfsmenn ungliðastarfs hjá fótboltafélögum.

Jardim sagði barnaníðingana nýta sér flókna tækni til að forðast lögreglurannsóknir. „Þeir geyma ólöglegt og glæpsamlegt myndefni sitt í tölvum í öðrum hluta landsins og jafnvel erlendis,“ sagði hann. „Og fólkið sem geymir efnið hefur oft ekki hugmynd um það.“

Rannsóknin beindist upphaflega að einstaklingum sem taldir voru deila barnaklámi sín á milli, en eftir að hald hafði verið lagt á tugi tölva, síma, harðra diska og geisladiska komust rannsakendur að því að hópurinn var einnig að framleiða efni og dreifa á netinu.

Meðal myndefnisins var að finna myndir af ungbörnum sem voru misnotuð.

Ekki liggur fyrir hvort barnaníðshringurinn var eingöngu starfandi í Brasilíu eða hvort hann tengdist öðrum sambærilegum hringjum erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert