Hyggst veita Pútín viðnám

Ksenia Sobchak hefur andæft stjórnvöldum í Rússlandi en er ný …
Ksenia Sobchak hefur andæft stjórnvöldum í Rússlandi en er ný á hinu pólitíska sviði. Stendur hún uppi í hárinu á Pútín? AFP

Hún hitti Vladimír Pútín nýlega til að taka viðtal við hann vegna þáttar sem hún er að gera um föður sinn sáluga, Anatólí Sobtsjak, fyrsta lýðræðislega kjörna borgarstjórann í Pétursborg, og notaði tækifærið til að upplýsa forsetann um áform sín; að hún hygðist bjóða sig fram gegn honum í kosningunum í mars á næsta ári. Og hvernig brást Pútín við? „Honum var ekki skemmt!“

Ksenia Sobtsjak gerði heyrinkunnugt í vikunni að hún yrði í kjöri þegar Rússar velja sér næst forseta. „Undanfarin sautján ár hefur ný kynslóð vaxið úr grasi sem vill sjá öðruvísi Rússland, siðmenntað og evrópskt,“ sagði Sobtsjak þegar hún kynnti framboð sitt í sjónvarpsviðtali. Þar er hún heldur betur á heimavelli, en Ksenia Sobtsjak hefur verið ein helsta sjónvarpsstjarna landsins í meira en áratug.

Stjórnmálaskýrendur eystra eiga vont með að átta sig á framboði hinnar 35 ára gömlu Sobtsjak. Í fyrsta lagi hvarflar ekki að nokkrum manni að Pútín muni tapa kosningunum og í annan stað er hún dóttir pólitísks læriföður forsetans, en Pútín var einn helsti ráðgjafi Anatolís Sobtsjak í borgarstjóratíð hans í Pétursborg og hefur margoft sagst eiga honum skuld að gjalda. Dagblaðið Vedomosti gerði því til dæmis skóna fyrr í haust að forsetinn og hirð hans væru að íhuga að biðja Kseniu Sobtsjak um að bjóða sig fram. Betra væri að hafa mótframbjóðendur sem væru handgengnir forsetanum.

Sobtsjak brást vond við þessum vangaveltum. „Þetta er haugalygi,“ bloggaði hún. „Ég hef hvorki haft formlegt né óformlegt samband við forsetaskrifstofuna um þetta mál. Ég er fullfær um að taka mínar eigin ákvarðanir.“

Athygli vekur samt að Sobtsjak hefur ekki gagnrýnt Pútín beint, alltént ekki ennþá, ekki frekar en óligarkinn Mikhaíl Prokhorov gerði þegar hann bauð sig fram gegn forsetanum árið 2012. Hann hlaut 8% atkvæða.

Hefur gagnrýnt stjórnvöld

Hitt liggur fyrir að Sobtsjak hefur verið gagnrýnin á stjórnvöld í Rússlandi; hún tók meðal annars þátt í mótmælum vegna meintra svika í þingkosningunum 2011 og lagðist gegn endurkjöri Pútíns í forsetakosningum ári síðar. Hún hefur sætt eftirliti af hálfu stjórnvalda og sumarið 2012 var húsleit gerð í íbúð hennar í Moskvu. Engin eftirmál urðu að þeim gjörningi.

Sama ár var spjallseríu sem hún stjórnaði á MTV í Rússlandi slaufað strax eftir fyrsta þáttinn, sem þótti Pútín ekki hagfelldur. Opinbera skýringin var sú að áhorfendur stöðvarinnar hefðu ekki áhuga á stjórnmálum.

Sobtsjak hefur lýst því yfir að hún líti á andófsmanninn Alexei Navalníj sem vin sinn og bandamann, en hann þykir líklegastur til að velgja Pútín undir uggum í kosningum. Fátt bendir hins vegar til þess að hann fái að bjóða sig fram, en stjórnvöld hafa ekki undan að henda honum í fangelsi fyrir að skipuleggja mótmæli í landinu. Þar situr hann einmitt núna. Rödd hans hefur heldur ekki heyrst í ríkismiðlunum en Navalníj hefur verið duglegur að ferðast um landið undanfarna mánuði, þar sem fjölmenni hefur hlýtt á mál hans. Nú þarf Sobtsjak að ákveða hvort hún hyggst beita áþekkum aðferðum í baráttu sinni. Hún kvaðst í vikunni vonast eftir stuðningi Navalníjs og gaf í skyn að hún myndi draga framboð sitt til baka yrði honum leyft að fara fram.

Breska blaðið The Guardian hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni innan Kremlarmúra að stjórnvöld hafi velt því alvarlega fyrir sér að leyfa Navalníj að gefa kost á sér í mars en horfið frá því af ótta við það að „neikvæður hljómur“ myndi fylgja framboði hans enda þótt Pútín myndi nær örugglega fara með sigur af hólmi.

Gamlir og göngulúnir kappar á borð við kommúnistann Gennadíj Zjúganov og þjóðernissinnann Vladimír Zjirinovskíj eru álitnir „heppilegri“ mótframbjóðendur enda ólíklegir til að þyrla upp ryki.

Þá er bara spurning hvar Ksenia Sobtsjak kemur inn í jöfnuna? Næsta mál á dagskrá hjá henni verður að afla sér meðmæla frá þrjú hundruð þúsund kosningabærum Rússum og skipuleggja kosningabaráttuna. Búist er við því að hún efni til blaðamannafundar í næstu viku til að gera frekari grein fyrir framboði sínu. Og hvernig sem fer í mars spá stjórnmálaskýrendur því að kosningabaráttan verði litríkari en oftast áður.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert