Sakar Fox um að hafa varið O'Reilly

Megyn Kelly.
Megyn Kelly. AFP

Megyn Kelly, fyrrverandi sjónvarpskona á Fox-sjón­varps­stöðinni og núverandi fréttamaður á NBC, sakaði fyrrverandi vinnuveitendur sína um að verja þáttastjórnandann Bill O'Reilly en hann hefur ítrekað verið sakaður um kyn­ferðis­lega áreitni. 

Kelly greindi frá því í morgunþætti sem hún stjórnar á NBC að hún hefði sent nokkrum yfirmönnum Fox tölvupóst í nóvember í fyrra þar sem hún greindi frá hegðun O'Reilly.

Greint var frá því í New York Times um helgina að O'Reilly, sem var rekinn úr starfi, hafi samið um greiðslu bóta í einu málanna þar sem hann var sakaður um kynferðislega áreitni. O'Reilly fékk starfslokasamning að andvirði 25 milljónum dala þegar hann var rekinn.

Bill O'Reilly.
Bill O'Reilly. AFP

Kelly heldur því fram að yfirmenn á Fox hafi vitað af því að O'Reilly semdi við konur sem hann hefði áreitt. Hún fullyrti einnig að Bill Shine, sem þá var annar af forstjórum Fox, hefði hringt í hana og sagt að þeir myndu ganga frá málinu er varðaði O'Reilly.

Sjálfur sagði O'Reilly í viðtali fyrir skömmu að enginn samstarfsmaður hefði sakað hann um kynferðislegt áreitni á 43 ára ferli hans í sjónvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert