Segja kerfisbundið barnaníð í Hollywood

Corey Haim og Corey Feldman í hlutverkum sínum í kvikmyndinni …
Corey Haim og Corey Feldman í hlutverkum sínum í kvikmyndinni The Lost Boys. Hún var tekin fimm árum eftir að Haim var nauðgað.

Fyrrverandi barnastjörnur hafa árum saman reynt að vekja athygli á barnaníði sem viðgengst í Hollywood. Í kjölfar flóðbylgju opinberana fullorðinna leikara á kynferðislegri áreitni og ofbeldi síðustu daga er nú vonast til þess að sú myrka hlið Hollywood sem barnaníð er komist loks almennilega upp á yfirborðið.

Fjöldi leikkvenna hefur undanfarið stigið fram og sagt frá ofbeldi og áreiti af hálfu kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein. Fleiri hafa stigið fram og sagt frá öðru níði sem viðgengst í bransanum í Hollywood. 

Sögur hafa lengi verið á sveimi um barnaníð í kvikmyndaborginni. Í gegnum árin hafa nokkrar barnastjörnur stigið fram og sagt frá en reynslusögur þeirra hafa hingað til ekki náð eyrum og athygli margra. Þeim hefur hreinlega stundum verið sópað undir teppið.

Alison Arngrim lék hina snobbuðu Nellie í Húsinu á sléttunni. …
Alison Arngrim lék hina snobbuðu Nellie í Húsinu á sléttunni. Hún hefur allt annað en fagra sögu að segja frá árunum í Hollywood.

Meðal þeirra sem hafa reynt að vekja athygli á því sem þau kalla kerfisbundið barnaníð eru Elijah Wood og Alison Arngrim en sú síðarnefnda lék Nellie í hinni gríðarlega vinsælu þáttaröð Húsinu á sléttunni á áttunda áratugnum.

Þá hefur Corey Feldman, sem var þekkt barnastjarna á níunda áratugnum, nokkrum sinnum rætt opinberlega um áreiti sem hann varð fyrir. „Ég er að segja að fólkið sem gerði mér þetta er enn að vinna, er enn þarna og er sumt á meðal hinna ríkustu og valdamestu í Hollywood,“ sagði Feldman í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina árið 2014. Þá voru liðin fjögur ár frá því að besti vinur hans, barnastjarnan Corey Haim, tók of stóran skammt af eiturlyfjum og lést.

„Ég var misnotaður og það voru nokkrar hendur þar að verki,“ sagði Feldman í viðtali við Hollywood Reporter í fyrra er hann reyndi enn á ný að vekja athygli á málinu. „En hvað Corey [Haim] varðar þá var þetta hrein og bein nauðgun. Og það gerðist þegar hann var ellefu ára.“

Vinirnir léku margoft saman í kvikmyndum frá því þeir voru nokkurra ára gamlir, m.a. í hinni vinsælu mynd The Lost Boys. Sú var kvikmynduð fimm árum eftir að nauðgunin átti sér stað. 

Feldman hefur aldrei nafngreint þá sem misnotuðu hann eða nauðguðu Haim en í kjölfar Weinstein-uppljóstrananna segist hann nú vera að vinna að áætlun um að varpa ljósi á atburðina og „ná fram raunverulegu réttlæti“.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Barnaníð í Hollwyood hófst hvorki með Feldman og Haim né lauk því með þeim. 

Í fréttaskýringu Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið er rætt við Jeff Herman, lögmann fjölda fyrrverandi bjarnastjarna sem kært hafa leikstjóra og aðra yfirmenn í kvikmyndaiðnaðinum fyrir misnotkun.

„Börn hafa verið misnotuð í Hollywood í áratugi en hafa í raun aldrei haft neina rödd,“ segir Herman. „Í þessum iðnaði eru börn að störfum sem gerist í raun hvergi annars staðar.“

Hann segir að börnin séu í leit að tækifæri og að foreldrar þeirra ýti þeim oft áfram á framabrautinni. „Þau eru svo undir náð og miskunn framleiðenda og leikstjóra komin.“

Herman segir að valdajafnvægið sé hvergi skýrara en milli leikara á barnsaldri og yfirmanna í þeim geira. 

Samsæri valdamikilla manna

Hann var m.a. lögmaður Michael Egan gegn leikstjóranum Bryan Singer en Egan sakaði hann og fleiri um kynferðislega misnotkun. Leikstjórinn, sem er m.a. þekktur fyrir að leikstýra X-Men, neitaði sök og var málið látið niður falla.

Herman segir að fleiri fórnarlömb ofbeldis hafi sagt sér frá því sem sé í gangi í Hollywood. Hann segir að í raun megi tala um samsæri í kvikmyndabransanum þar sem valdamiklir karlmenn líti svo á að börn séu nokkurs konar fríðindi sem fylgi því að starfa í Hollywood.

Allison Arngrim varð þekkt um allan heim í hlutverki Nellie Dalton í Húsinu á sléttunni sem naut mikilla vinsælda á áttunda áratug síðustu aldar. Hún skrifaði um barnaníð í Hollywood í ævisögu sinni.

„Í Hollywood eru foreldrar sem nánast gera börnin sín út í vændi í þeirri von að græða peninga og komast áfram. Þetta er hræðileg gildra sem börnin eru í,“ skrifaði Arngrim. „Þetta fólk lítur ekki á börnin sín sem börn. Og þetta er algengara en þú heldur.“

Nafnarnir og vinirnir Corey Feldman og Corey Haim voru þekktar …
Nafnarnir og vinirnir Corey Feldman og Corey Haim voru þekktar barnastjörnur í Hollywood. Haim lést fyrir nokkrum árum.

Nokkur dómsmál hafa verið höfðuð í svona málum. Árið 1988 var Victor Salva sakfelldur fyrir að hafa misnotað hinn þá 12 ára gamla Nathan Forrest Winters við tökur á kvikmyndinni Clownhouse. En innan við áratug síðar leikstýrði Salva Disney-myndinni Powder og árið 2001 framleiddi hann myndina Jeepers Creepers sem skartaði ungum leikurum í aðalhlutverkum. 

Árið 2015 gerði Amy Berg heimildarmyndina An Open Secret, þar sem fjallað var um sögu barnaníðs í Hollwyood. Berg segist í henni varpa ljósi á „toppinn á ísjakanum“. Níðingarnir séu úr röðum umboðsmanna, leikstjóra, framleiðenda og leikara. 

Í myndinni var m.a. fjallað um umboðsmanninn Marty Weiss sem játaði brot sín, Bob Villard, fyrrverandi umboðsmann Leonardo DiCaprio og fleiri, sem hefur einnig játað kynferðisbrot gegn barni og leikarann Brian Peck sem var dæmdur í fangelsi til eins árs fyrir að misnota barnastjörnu.

„Ekkert sértaklega hrifinn“ af ungum drengjum

Berg var hótað lögsókn vegna myndarinnar, m.a. af Screen Actors Guild, sambandi leikara í Bandaríkjunum. Hótunin var vegna viðtals sem Berg birti við einn meðlim sambandsins, Michael Harrah, þar sem hún spurði hann hvort að ungir strákar hefðu heillað hann. Svar hans var: „Ekkert sérstaklega, nei.“ Í myndinni viðurkenndi Harrah að hafa „snert“ barnungan leikara. „Ja, það var eitthvað sem hann vildi ekki og ég hefði ekki átt að gera.“

Harrah sagði síðar að ummæli sín hefðu verið tekin úr öllu samhengi.

Sá bolti sem tók að rúlla í kjölfar umfjöllunar um ofbeldi og brot framleiðandans Weinsteins, hefur að einhverju leyti undið ofan af þögninni sem umleikið hefur barnaníð í Hollywood. Þannig hefur umboðsmaðurinn Tyler Grasham verið sakaður um kynferðisbrot gegn barni og var í kjölfarið rekinn frá fyrirtækinu sem hann starfaði hjá. 

Leikstjórinn Paul Haggis sagði í viðtali við The Guardian nýverið að það væri engu líkara en að hópur fólks í kvikmyndabransanum væri að hylma yfir með barnaníðingum.

Síðustu daga hefur viðtal Barböru Walters við Corey Feldman farið á flug á YouTube. Í viðtalinu fékk hann lítinn stuðning frá Walters sem sakaði hann um að smána heilan iðnað með ásökunum sínum um áreiti og ofbeldi af hálfu ríkra og valdamikilla karla. En núna fær Feldman meiri samúð og stuðning. Umræðan hefur breyst. Hvort enn frekari afhjúpun á barnaníði í Hollywood er í uppsiglingu á eftir að koma í ljós.

Greinin er byggð á fréttum Sky og The Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert