„Og ég barðist og ég barðist“

Leikkonan Annabella Sciorra.
Leikkonan Annabella Sciorra. AFP

Ítalska leikkonan Annabella Sciorra, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í The Sopranos, segir kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein hafa nauðgað sér. Í viðtali við The New Yorker segir hún að Weinstein hafi ruðst hinn á heimili hennar í New York árið 1992 og ráðist á hana. Í kjölfarið hafi hann áreitt hana árum saman. Í sömu grein segir leikkonan Daryl Hannah einnig frá áreitni sem hún varð fyrir af hálfu Weinsteins.

Talskona Weinsteins segir hann enn neita öllum ásökunum sem bornar hafa verið á hann um áreitni og ofbeldi.

Yfir fimmtíu konur hafa nú ásakað kvikmyndaframleiðandann um áreitni eða ofbeldi. Á fimmtudag steig ein þeirra fram, leikkonan Natassia Malthe, og sagði að Weinstein hefði nauðgað sér á hótelherbergi í London árið 2008.

Sciorra segir að nauðgunin hafi átt sér stað skömmu eftir að tökum á kvikmyndinni The Night We Never Met lauk, en Weinstein var framleiðandi hennar.  

Um kvöldið hafði hópur aðstandenda myndarinnar verið saman úti að borða. Weinstein ók Sciorra svo heim til hennar að því loknu. Hún var að fara að hátta er hann ruddist inn í íbúðina.

Hún segir hann hafa bankað og hún opnað dyrnar. Hún hafi beðið hann um að fara en hann neitað að gera það. Hann hafi svo ýtt henni á rúmið og nauðgað henni. „Ég barðist um en ég hafði ekki mikinn mátt eftir,“ segir hún í viðtalinu. „Eins og flestar þessar konur skammaðist ég mín fyrir það sem hafði gerst. Og ég barðist. Og ég barðist. En ég var alltaf að hugsa: Af hverju opnaði ég dyrnar? Mér fannst ég ógeðsleg.“

Leikkonan segist ekki hafa kært ofbeldið til lögreglunnar. Hún segir nauðgunina hafa haft mikil áhrif á sig og hún hafi ekki fengið vinnu í nokkur ár í kjölfar hennar. „Ég fékk alltaf skilaboðin: Við heyrðum að þú værir erfið, við heyrðum hitt og þetta.“ Sciorra segist telja að þarna hafi Weinstein og hulduher hans verið að verki.

Bandaríska leikkonan Daryl Hannah.
Bandaríska leikkonan Daryl Hannah. AFP

Hún varð eftir þetta áfram fyrir áreitni af hans hálfu. Hann birtist til dæmis á nærfötunum einum fata fyrir utan hótelherbergi hennar á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1997.

Leikkonan Daryl Hannah, sem lék í kvikmyndinni Kill Bill sem Weinstein framleiddi, sakar hann einnig um áreitni. Hún segir að hann hafi reynt að þröngva sér inn á hótelherbergi hennar eru þau voru í kynningarherferð vegna myndarinnar. Hún segir að eitt sinn hafi Weinstein spurt hvort hann mætti káfa á henni og beðið hana að afklæðast.

Eftir að ásakanir kvennanna fóru að koma fram snemma í október fór Weinstein í meðferð vegna kynlífsfíknar. Hann neitar enn að hafa beitt konur ofbeldi eða áreitt þær.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert