Ásakanirnar „fáránlegar og tilhæfulausar“

Barn í Jemen fær bóluefni við mænusótt. Lyf eru af …
Barn í Jemen fær bóluefni við mænusótt. Lyf eru af skornum skammti í landinu og kólerufaraldur braust út fyrir mörgum mánuðum. AFP

Stjórnvöld í Íran hafna ásökunum Sádi-Araba um að standa að baki uppreisnarmönnum í Jemen og í vegi fyrir friðarumleitunum. Segja Íranar ásakanirnar „fáránlegar og tilhæfulausar“.

Bahram Ghasemi, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, segir að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi sakað Írana um að koma í veg fyrir að friður komist á í Jemen. Ghasemi segir þetta alrangt. „Íran hefur frá upphafi fordæmt árásir á Jemen og mun ekki slá slöku við í að stöðva þetta blóðuga og andstyggilega stríð,“ sagði í yfirlýsingu talsmannsins.

Sádi-Arabar styðja stjórnarher Jemen í borgarastríðinu gegn uppreisnarmönnum Húta. 

Báðar fylkingar hafa verið sakaðar um að ógna öryggi óbreyttra borgara en stuðningur bandamanna, sem leiddur er af Sádi-Aröbum, hefur verið sérstaklega gagnrýndur fyrir að sprengja skóla, markaði og sjúkrahús.

Ghasemi segir að þó að Sádi-Arabar endurtaki ásakanir sínar gegn Írönum minnki það ekki ábyrgð þeirra sjálfra á hroðalegum glæpum í stríðinu í Jemen.

Þúsundir fallið frá 2015

Árið 2015 hófu bandalagsríkin að skipta sér af borgarastríðinu í Jemen eftir að uppreisnarmenn náðu höfuðborginni Sanaa á sitt vald. Síðan þá hafa að minnsta kosti 8.600 manns dáið í átökunum, þeirra á meðal börn.

Síðustu mánuði hefur svo kólerufaraldur geisað í landinu og meira en 2.100 hafa látist af hans völdum frá því í apríl. Sjúkrahús eru undirmönnuð þar sem heilbrigðisstarfsfólk fær ekki greidd laun og lyf, tæki og tól eru af skornum skammti þar sem umsátursástand ríkir við hafnir landsins og flugvöllum. 

Sameinuðu þjóðirnar segja að hungursneyð vofi yfir og mannréttindasamtök segja hana þegar hafna á ákveðnum svæðum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert