Fimm unglingar í framboði til ríkisstjóra

Hann er snyrtilegur til fara, í skyrtu og dökk bláum jakka. Við fyrstu sýn virðist Tyler Ruzich alveg eins og hver annar frambjóðandi til ríkisstjóra í Bandaríkjunum. En hann er það alls ekki því Ruzich er aðeins sautján ára og í hópi fimm unglinga sem ætla að bjóða sig fram til ríkisstjóra Kansas á næsta ári.

Ef kosið yrði nú væri Ruzich of ungur til að kjósa sjálfur. Kosningalög í Kansas eru frjálslegri en gengur og gerist og því sáu unglingarnir sér leik á borði.

„Það er nokkuð ljóst að stjórnmálamennirnir hafa vanrækt okkur,“ sagði Ruzich í kosningaræðu sem hann hélt í menntaskóla í borginni Lawrence nýverið. Við hlið hans stóðu þrír aðrir unglingar sem sækjast eftir embætti ríkisstjóra. 

Kansas er í miðju meginlands Norður-Ameríku. Þar hafa repúblikanar lengi verið sterkir í stjórnmálalífinu. Í kjölfar þess að Donald Trump var  kosinn forseti, og allt virtist gerlegt í hinum pólitíska heimi, ákváðu ungmenni að bjóða sig fram.

„Þetta er mikilvægt tækifæri til að fá ungt fólk til að taka þátt,“ segir repúblikaninn Ruzich í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Ungmennin nýta sér þá staðreynd að samkvæmt kosningalögum í Kansas eru engin aldurstakmörk á frambjóðendur til ríkisstjóra. Einn frambjóðandinn hefur m.a. sagt í gríni að lögin séu svo frjálslynd að hundur gæti jafnvel boðið sig fram.

Aðeins eitt annað ríki Bandaríkjanna er með svo frjálslynd kosningalög; Vermont. Einn frambjóðandi til ríkisstjóra þar er aðeins þrettán ára. 

Jack Bergeson er sextán ára. Hann var fyrsti unglingurinn sem bauð sig fram til ríkisstjóra í Kansas. Hann fékk í kjölfarið mikla athygli fjölmiðla og kom m.a. fram í spjallþáttum í útvarpi og sjónvarpi.

Í sumar ákváðu svo Ruzich og Ethan Randleas, sem báðir eru sautján ára, að bjóða sig fram. Í haust bættist svo hinn sextán ára Dominic Scavuzzo í hópinn og í síðustu viku jafnaldri hans, Joseph Tutera.

„Þetta er í góðu lagi. Fólk er að sýna að yngri kynslóðir eru hér til að taka þátt og hafa áhrif,“ segir Bergeson. Enn sem komið er hefur engin stúlka boðið sig fram. „Ég er ekki endilega stuðningsmaður forsetans en hann hefur sýnt okkur að fólk er búið að fá nóg af kerfinu,“ segir Bergeson.

Unglingarnir vonast til þess að með framboðum sínum vakni ungt fólk til meðvitundar um mikilvægi þess að kjósa. Af fimmmenningunum er Bergeson eini demókratinn. 

Stefnumál þeirra eru margvísleg. Ruzich vill hækka skatta á fyrirtæki. Bergeson vill einnig hækka skatta. Allir ungu frambjóðendurnir vilja lögleiða kannabis. 

Svo virðist sem framboð unglinganna hafi þegar haft áhrif. Þannig segist fleira yngra fólk nú ætla að taka þátt í kosningunum á næsta ári. 

Einn fullorðinn frambjóðandi hefur stigið fram og sagt að framboð unglingana sé bæði skemmtilegt og hvetjandi. „En það ætti að vera aldurstakmark,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert