Trúðar skemmta rohingja-börnum

Börn skríktu af gleði er trúðar með rauð nef skemmtu þeim í heimsins stærstu flóttamannabúðum í Bangladess. Í búðunum hafast hundruð þúsunda Rohingja við eftir að hafa flúið heimaland sitt, Búrma. Börnin eru mörg hver í miklu áfalli í búðunum enda þurft að horfa upp á miklar hörmungar. Ástandið í flóttamannabúðunum er auk þess bágborið og lítinn mat og skjól að hafa. 

Mohammad Noor býr ásamt móður sinni og þremur systkinum í tjaldi í Kutupalong-búðunum. Lífsbaráttan er erfið. Mohammad er tíu ára og flúði frá Búrma í síðasta mánuði eftir að faðir hans var drepinn í hrottafengnum árásum stjórnarhersins. Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað her Búrma um þjóðernishreinsanir.

Trúðarnir sem mættir eru í búðirnar eru því kærkomin dægradvöl fyrir börnin. Um stund gleyma þau ofbeldinu sem þau hafa orðið vitni að.

„Þetta er sprenghlægilegt. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Ég og vinir mínir hlógum bara og hlógum,“ sagði Mohammad við fréttamann AFP. 

Hefð er fyrir því í Bangladess að nota leiklist til að létta fólki lundina. Er yfir 1.100 manns létust í eldsvoða í fataverksmiðju í landinu árið 2013 mættu trúðarnir á svæðið og reyndu að kalla fram bros á vörum barna sem misst höfðu ættingja í brunanum.

Flóttamannabúðir rohingja í landinu eru enginn sælustaður. Þar liggja margir veikir og særðir og aðrir syrgja sárt þá sem þeir misstu í átökunum, sem enn viðgangast, í heimlandinu. 

„Okkar eina markmið er að fá rohingjana til að hlæja,“ segir loftfimleikakonan Rina Akter Putul sem er hluti af fjöllistahópnum sem skemmti í flóttamannabúðunum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert