Slanga hringaði sig um fuglabúrið

Slangan hafði skriðið upp á búrið.
Slangan hafði skriðið upp á búrið. Ljósmynd/Malvin Yap

Á elleftu stundu tókst að bjarga páfagauk undan beittum tönnum slöngu sem hafði hringað sig utan um búr hans. Atvikið átti sér stað á heimili í Singapúr.

Slangan var 1,5 metrar að lengd. 

Eigandi páfagauksins segir í samtali við BBC að hann hafi náð slöngunni af búrinu með priki. Hann hafi svo komið henni til dýraverndunarsamtaka. Páfagaukurinn, sem heitir Nikki, slapp ómeiddur en var mjög hræddur að sögn eigandans, Melvin Yap.

Stórir snákar og slöngur eru ekki óalgengar í Singapúr enda dýralífið þar í landi fjölskrúðugt.

Yap lá sofandi í rúmi sínu snemma í gærmorgun er hann vaknaði við öskur í íbúð sinni. Þá hafði ráðskonan ætlað að þrífa fuglabúrið. Eiginkona Yap kom að og sá strax að slanga hafði hringað sig um búr fuglsins. 

Það var tíu ára dóttir Yap sem aðstoðaði hann við að fanga slönguna og setja hana í plastpoka. Þaðan fluttu þau hana í tómt fiskabúr svo að hún myndi ekki kafna í plastpokanum. Þau hringdu svo í dýraverndunarsamtök sem komu og sóttu hana. 

„Eftir að ég handsamaði slönguna áttaði ég mig á því að hún var hræddari við okkur en við við hana,“ segir Yap. Hann sagði að slangan hafi ekki verið eitruð og það hafi róað fjölskylduna. 

Yap býr í nágrenni skóglendis. Þéttbýlt er í landinu og á síðustu árum hefur íbúabyggð teygt sig lengra inn í skógana. Þar er fjölskrúðugt dýralíf að finna.

Yap er mikill dýravinur og vildi ekki skaða slönguna. Hann sagði að dýrin væru hluti af umhverfinu rétt eins og maðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert