Flóttamenn í Grikklandi í hungurverkfalli

Nokkrir þeirra flóttamanna, sem hafa beðið í Grikklandi í meira ...
Nokkrir þeirra flóttamanna, sem hafa beðið í Grikklandi í meira en ár eftir að komast til fjölskyldu sinnar í öðrum Evrópuríkjum, eru nú komnir í hungurverkfall. AFP

Hópur sýrlenskra flóttamanna hefur nú komið upp tjaldbúðum framan við þinghúsið í Aþenu, höfuðborg Grikklands. Vill fólkið þannig mótmæla töfum á að það fái að sameinast ættingjum sínum í Þýskalandi.

Hópurinn er að stærstum hluta skipaður konum og börnum. Sumir þeirra, sem segjast hafa verið í Grikklandi í meira en ár, eru nú komnir í hungurverkfall.

„Fjölskyldubönd okkar eru sterkari en ólöglegir samningar ykkar,“ stóð á skilti sem ein kona hélt uppi. Var þar vísað í samninga ESB-ríkja um málefni flóttamanna og hælisleitenda. Grískir fjölmiðlar hafa greint frá því að stjórnvöld í Grikklandi og Þýskalandi hafi gert með sér óformlegt samkomulag um að hægja á ferlinu við að sameina þá flóttamenn sem hafa verið strandaglópar í Grikklandi fjölskyldum sínum. Grísk stjórnvöld neita því að slíkt samkomulag sé í gildi.

Greiða ekki sjálfir fyrir flugferðina

„Okkur hefur tekist að fjölga þeim fjölskyldum sem ná saman um 27% á þessu ári, sé það borið saman við síðasta ár þrátt fyrir að við séum sökuð um að draga úr endurfundum fjölskyldna og að gera samninga um slíkt,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Yannis Mouzalas, ráðherra innflytjendamála.

Flóttamennirnir hafa sett upp tjaldbúðir framan við gríska þinghúsið til ...
Flóttamennirnir hafa sett upp tjaldbúðir framan við gríska þinghúsið til að mótmæla seinagangi við afgreiðslu mála sinna. AFP

Hann sagði Þjóðverja hafa fullvissað Grikki um að þeir sem eiga umsóknir sem hafa verið samþykktar muni á endanum komast til Þýskalands, jafnvel þó að það verði tafir í ferlinu. Mouzalas hafnaði hins vegar alfarið sögum um að flóttamenn séu látnir greiða sjálfir fyrir flugferðina.

Það getur tekið fleiri mánuði fyrir einstaklinga að fá umsókn sína afgreidda og fá samþykki fyrir flutningi sínum frá Grikklandi til annars ESB-ríkis.

Flóttamannastraumurinn að aukast á ný

„Ég hef hvorki séð eiginmann minn né barn í meira en eitt ár og níu mánuði,“ hefur Reuters eftir hinni sýrlensku Dalal Rashou. Hún á fimm börn og eitt þeirra er í Þýskalandi með eiginmanni hennar. „Ég sakna hans og hvern dag sem ég er hér í Grikklandi græt ég. Ég vil ekki vera hérna. Ég vil vera hjá eiginmanni mínum.“

Um 60.000 flóttamenn og hælisleitendur, sem flestir eru Sýrlendingar, Afganar eða Írakar, hafa verið strandaglópar í Grikklandi frá því Balkanríkin lokuðu landamærum sínum fyrir umferð þeirra til Vestur-Evrópu og miðhluta álfunnar.

Um 148.084 flóttamenn og hælisleitendur hafa komið til Grikklands frá Tyrklandi það sem af er þessu ári. Það er þó bara brot af þeim tæplega milljón einstaklingum sem komu til landsins 2015. Flóttamannastraumurinn hefur þó aukist á ný á undanförnum mánuðum og komu 214 manns til Grikklands dag hvern í september á þessu ári, í júlí voru þeir 87 og 56 í mars.

mbl.is
Hreinsa þakrennur
Hreinsa þakrennur, laga ryð á þökum og tek að mér ýmis smærri verkefni. Uppl. í ...
PENNAR
...
BÆKUR TIL SÖLU
Bækur til sölu Stjórnartíðindi 1885-2000, 130 bækur, Almanak Þjóðvinafélags-ins ...
 
Mat á umhverfisáhrifum
Tilkynningar
Mat á umhverfisáhrifum Álit...
Deildastjóri
Grunn-/framhaldsskóla
Sunnulækjarskóli Dei...
Skipulagsmál
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipulags...
Tillaga að deiliskipulagi
Tilkynningar
Breiðdalshreppur Tillaga ...