Hefur ekki sagt hvernig Kim Wall dó

Kim Wall og Peter Madsen um borð í Nautilus 10. …
Kim Wall og Peter Madsen um borð í Nautilus 10. ágúst. Madsen segist hafa verið uppi í turni kafbátsins þegar Wall lést. AFP

Lögfræðingur Peters Madsens, sem kærður hefur verið fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall, segir dönsku lögregluna hafa rangtúlkað orð skjólstæðings síns. Lögregla sendi á mánudag frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Madsen hafi sagt Wall hafa látist úr kolmónoxíðeitrun á meðan hann var sjálfur í turni kafbátsins. Áður hafði hann sagt lög­reglu að hún hefði fengið lúgu í höfuðið og hann hefði í sjálfs­vígs­st­urlun ákveðið að sökkva kaf­bátn­um. 

Betina Hald Engmark, lögfræðingur Madsens, segir lögreglu hafa rangtúlkað orð Madsens við síðustu yfirheyrslu.

„Ég var viðstödd yfirheyrsluna allan tímann og á engum tímapunkti sagðist hann vita hvernig hún hefði dáið,“ sagði Engmark í viðtali við dönsku TV2 sjónvarpsstöðina. Segir Engmark Madsen aðeins hafa útskýrt að hann hefði verið í útsýnisturni kafbátsins á meðan Wall var niðri í kafbátnum. Loftþrýstingurinn hefði verið neikvæður og að það hefði verið afgas í andrúmslofti kafbátsins. Skjólstæðingur sinni viti ekki af hverju Wall hafi dáið. „Það eru til margar ólíkar tegundir af afgasi,“ sagði Engmark.

Madsen hefur ítrekað neitað að hafa myrt Wall, en hefur gefið margar og mismunandi skýringar og eins hefur hann viðurkennt að hafa sundurlimað lík hennar og hent í sjóinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert