Felldu borgara í hundraðavís

Írösk fjölskylda stendur á rústum húss síns í norðvesturhluta Mósúl. …
Írösk fjölskylda stendur á rústum húss síns í norðvesturhluta Mósúl. Stórir hlutar borgarinnar eyðilögðust í umsátrinu. AFP

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams tóku 741 óbreyttan borgara af lífi í orrustunni um írösku borgina Mósúl, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Umsátrið um borgina stóð í níu mánuði. Sameinuðu þjóðirnar segja að Ríki íslams hafi framið „alþjóðlega glæpi“ á þessu tímabili.

2.521 féll á meðan umsátrinu stóð, aðallega vegna árása Ríkis íslams. Orrustan stóð á milli vígamanna samtakanna og íraskra öryggissveita sem nutu stuðnings bandalagsríkja.

„Þeir sem bera ábyrgð verða að svara fyrir þessa hryllilegu glæpi,“ segir Zeid Ra'ad Al Hussein, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, í yfirlýsingu. 

Ríki íslams náði borginni Mósúl á sitt vald árið 2014. Borgin var upp frá því höfuðvígi samtakanna í Írak. 

Í kjölfar þess að stjórnarherinn náði aftur völdum í borginni hófu Sameinuðu þjóðirnar að safna vitnisburðum sem leiddu í ljós fjöldaaftökur á óbreyttum borgurum. Þúsundir þeirra voru notaðir sem mannlegir skildir í bardögunum og þeir sem reyndu að flýja voru drepnir.

Ómögulegt að greina hver gerði hvað

Meira en 800 þúsund manns misstu heimili sín meðan á orrustunni stóð. 

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna óskar eftir því að rannsókn verði gerð á aðkomu alþjóðlegra hersveita að málinu sem og skæruliðahópa sem tóku þátt í umsátrinu.

Samkvæmt skýrslu stofnunarinnar féll 461 óbreyttur borgari í loftárásum sem gerðar voru á borgina 19. febrúar er átökin voru hvað mest. Nær ómögulegt er að vita hver ber ábyrgð á einstökum árásum sem gerðar voru í umsátrinu, að sögn skýrsluhöfunda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert