Puigdemont mætti ekki fyrir dómara

Lluis Guino (fyrir miðju), varaforseti héraðsstjórnarinnar í Katalóníu mætir í …
Lluis Guino (fyrir miðju), varaforseti héraðsstjórnarinnar í Katalóníu mætir í dómstólinn í Madrid í morgun. AFP

Níu af fjórtán fyrrverandi meðlimum héraðsstjórnar Katalóníu mættu fyrir dómstól á Spáni í morgun þar sem þeir munu svara til saka fyrir ákærur vegna sjálfstæðiskröfu Katalóníu. Leiðtogi Katalóníu, Carles Puigdemont, er ekki þar á meðal. BBC greinir frá. 

Puigdemont hefur dvalið í Belgíu frá því um helgina þar sem hann réð sér lögfræðing sem telur ólíklegt að Puigdemont muni snúa aftur til Spánar. Hann segir réttarhöldin vera fyrst og fremst pólitísk. „Þessi stefna er hluti af atburðarás sem skortir allan lagalegan grunn,“ segir leiðtogi Katalóníu í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér.

Stuttu eftir að varaforseti héraðsstjórnarinnar, Lluis Guino, og átta aðrir fyrrverandi ráðherrar héraðsstjórnarinnar mættu fyrir dómstólinn í Madrid í morgun barst tilkynning frá Hæstarétti Spánar að réttarhöldunum yrði frestað til 9. nóvember. Þá munu þeir ráðherrar sem mæta fyrir dóm þurfa að svara til saka fyrir ákæru um uppreisn, uppreisnaráróður og trúnaðarbrot og geta þeir átt yfir höfði sér 15-20 ára dóm, hver um sig. 

Spænsk yfirvöld geta nú gefið út handtökuskipun á hendur Puigdemont og þeim ráðherrum héraðsstjórnarinnar sem ekki mættu fyrir dómstólinn í morgun.

Carles Puigdemont hefur dvalið í Belgíu frá því um helgina.
Carles Puigdemont hefur dvalið í Belgíu frá því um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert