Trump krefst dauðadóms

Sayfullo Saipov, 29 ára frá Úsbekistan, hefur verið ákærður fyrir hryðjuverk af bandarískum saksóknurum en hann ók viljandi niður átta vegfarendur í New York í fyrradag. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifar á Twitter að hann ætti að vera dæmdur til dauða. Dauðarefsing er ekki heimiluð í New York ríki þar sem Saipov framdi ódæðið.

 Saipov er einnig ákærður fyrir að hafa stutt vígasamtökin Ríki íslams, bæði í orðum og verki.

Saipov var skotinn í kviðinn af lögreglu á vettvangi og er á sjúkrahúsi. Að sögn saksóknara var Saipov hinn hressasti þegar hann ræddi við hann á sjúkrabeði og játaði að hafa ekið á stórum bíl á fólkið sem var á hjóla- og göngustíg á Lower Manhattan. Sex létust á vettvangi og tveir á sjúkrahúsi. Tólf særðust í árásinni og eru níu þeirra enn á sjúkrahúsi. 

Í ákærunni kemur fram að Saipov hafi sagt að hann hafi byrjað að undirbúa árásina fyrir tveimur mánuðum. Hann hafi valið hrekkjavökuna viljandi þar sem þá yrðu svo margir úti við. Hann hafi viljað koma fána Ríki íslams fyrir á bifreiðinni en ákvað að gera það ekki til þess að forðast athygli. 

Í síma hans fundust 90 ofbeldisfull áróðursmyndskeið frá Ríki íslams. Hann segir að þau hafi fyllt hann eldmóði og einkum það þar sem leiðtogi Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, spyr hvað múslímar séu að gera til þess að hefna fyrir þá sem hafa látist í Írak.

Samkvæmt BBC sagði John Miller, aðstoðarlögreglustjóri í New York, að svo virtist sem Saipov hefði fylgt nánast í öllu leiðbeiningum Ríkis íslams sem vígasamtökin hafa birt á samfélagsmiðlum. Hvernig eigi að fremja slíkar árásir o.fl. 

Sayfullo Saipov kom sem löglegur innflytjandi til Bandaríkjanna árið 2010 frá Úsbekistan. Fyrst bjó hann í Tampa í Flórída en þaðan flutti hann til Paterson, New Jersey. Þar starfaði hann sem bílstjóri á Uber.

Heimildir CBS News innan úr leyniþjónustunni herma að bandarísk yfirvöld hafi þekkt til hans en það tengist hryðjuverkarannsókn bandarísku alríkislögreglunnar frá árinu 2015. Heimildirnar herma að Saipov hafi verið í tengslum við öfgasinna í Bandaríkjunum, þar á meðal samlanda sinn.  

Frétt BBC í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert