Fyrsta trans-þingkona Virginu

Danica Roem er demókrati sem kjörin var á ríkisþing Virginíu …
Danica Roem er demókrati sem kjörin var á ríkisþing Virginíu í gær. AFP

Bandarískur demókrati skrifaði sig á spjöld sögunnar í gær með því að verða fyrsti þingmaðurinn á ríkisþingi Virginíu sem er transmanneskja og hefur ekki farið leynt með það.

Danica Roem er 33 ára gömul og starfaði áður sem blaðamaður og tónlistarmaður. Hún keppti um sæti á ríkisþinginu við Robert Marshall. Hann hefur setið á ríkisþinginu í meira en aldarfjórðung og barist gegn réttindum samkynhneigðra og transfólks. 

Þegar búið var að telja 95% atkvæða var Roem með 55% en Marshall 45%. Sjóður samtaka samkynhneigðra í Virginiu (Gay & Lesbian Victory Fund) segja að Roem sé fyrsta transmanneskjan sem nær kjöri á ríkisþingi í Bandaríkjunum.

Aisha Moodie-Mills, forseti sjóðsins, segir að kjöri Roem séu send kröftug skilaboð til samfélagsins, ekki síst þeirra sem berjast gegn réttindum LGBTQ.

Roem naut mikils fjárhagslegs stuðnings frá sjóðnum auk annarra LGBT-hópa í kosningabaráttunni. Hún er kjörin til tveggja ára á ríkisþingið í Richmond en demókratar unnu þar nokkur sæti til viðbótar í gær og eru þeir nálægt því að ná meirihlutanum af repúblikönum. 

Að sögn Roem er hún ekki að taka þátt í stjórnmálum til þess eins að verða tákn LGBTQ í tíð forseta sem hefur bannað transfólki að gegna herþjónustu. Þess í stað ætli hún sér að einbeita sér að sveitarstjórnarmálum. Þar hafi búi hún yfir áratuga langri þekkingu sem blaðamaður við Gainesville Times-dagblaðið.

Marshall, sem hefur barist hatrammlega gegn því að samkynhneigðir njóti jafnréttis, neitaði að tala um Roem í kvenkyni í kosningabaráttunni. Hann neitaði jafnvel að taka þátt í kappræðum með henni. 

Í skilaboðum á Facebook þakkar Marshall stuðningsfólki sínu og segist hafa barist fyrir framtíð þess í 26 ár. Þrátt fyrir að hann og stuðningsfólk hans hafi viljað aðra niðurstöðu sé hann þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hafi fengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert