12 tonn af kókaíni grafin í jörðu

Kólumbíska lögreglan hefur lagt hald á tólf tonn af kókaíni og er þetta mesta magn kókaíns sem hefur fundist á einum stað í landinu.

Eiturlyfin fundust grafin í jörðu á fjórum banana-plantekrum í norðurhluta landsins. Ekrurnar eru skammt frá einni helstu smyglleið kókaíns til Bandaríkjanna.

Forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, segir þetta mesta magn eiturlyfja sem lögreglan hefur lagt hald á í einni aðgerð. Aðgerðin er hluti af aðgerðum gegn fíkniefnasamtökunum Clan del Golfo sem eru með gríðarleg völd í Kólumbíu og illa hefur gengið að uppræta. 

Að sögn lögreglu eru fíkniefnin í eigu Dairo Úsuga, sem einnig gengur undir nafninu Otoniel, en hann er leiðtogi samtakanna. Yfirvöld í Kólumbíu hafa árum saman reynt að hafa hendur í hári Otoniel án árangurs.

BBC greinir frá því að fjórir hafi verið handteknir í tengslum við kókaínfundinn en virði eiturlyfjanna er um 360 milljónir Bandaríkjadala, 38,2 milljarðar króna. 

Undanfarna tvo mánuði hefur lögreglan lagt hald á um 20 tonn af kókaíni í Antioquia, sem er í norðvesturhluta Kólumbíu. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert