Aukið fjármagn í baráttu gegn öfgahópum

Lögregla beitti piparúða á liðsmenn öfgasamtakanna Nordic Resistance Movement í …
Lögregla beitti piparúða á liðsmenn öfgasamtakanna Nordic Resistance Movement í Gautaborg í september. AFP

Sænska lögreglan mun fá aukið fjármagn í baráttuna gegn ofbeldishneigðum öfgahópum fyrir þingkosningarnar á næsta ári. Þetta var samþykkt af ríkisstjórn landsins í gær.

Farið verður í sértækar aðgerðir á vegum lögreglu og öryggislögreglunnar, Säpo, til að takast á við glæpi tengda stjórnmálum. Dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Morgan Johansson, hafði áður hvatt til þess að þetta yrði gert í undanfara þingkosninga.

Johansson segir í viðtali við sænska úrvarpið að fyrir kosningar sé hætta á pólitískum óstöðugleika á sama tíma og ofbeldishneigðir einstaklingar gætu nýtt sér ólík tækifæri til þess að ráðast á stjórnmálamenn eða gera árás á staði þar sem mikill mannfjöldi hefur safnast saman.

Öfgahófpar eins og nýnasistahópurinn Nordic Resistance Movement (NRM) hafa gert sig breiða við ýmis tækifæri í ár. Johansson segir að nokkrir liðsmenn samtakanna, sem tóku þátt í mótmælum í Gautaborg í september, eigi vopn og hafi verið dæmdir fyrir saknæmt athæfi. Stjórnvöld eiga einnig von á því að aðrir öfgahópar eigi eftir að vera meira áberandi á næstu misserum.

Meðal þess sem reyna á að koma í veg fyrir er að þessum öfgahópum takist að breiða út áróður sinn sem og beita fólk ofbeldi og áreita það.

Öfgasamtökum hefur vaxið fiskur um hrygg í Svíþjóð. Einkum nýnasistum.
Öfgasamtökum hefur vaxið fiskur um hrygg í Svíþjóð. Einkum nýnasistum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert