Bretar fara út með eða án samnings

AFP

„Ef einhver ríkisstjórn í Bretlandi reyndi að fara gegn vilja bresku þjóðarinnar og samþykkt þingsins í kjölfarið um að virkja útgönguákvæði Lissabon-sáttmálans þá væri sá stjórnmálaflokkur eða ríkisstjórn í alvarlegri pólitískri stöðu. Þá væru menn að leika sér að eldinum og ég trúi því ekki að nokkurn tímann komi til þess.“

Þetta segir David Jones, þingmaður breska Íhaldsflokksins og fyrrverandi ráðherra í ráðuneyti útgöngumála í ríkisstjórn Bretlands, en hann er staddur hér á landi á vegum Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Jones flutti erindi á fundi í Háskóla Íslands síðdegis í dag þar sem hann ræddi um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Viðræðurnar um útgönguna eru núna í gangi og eins og alltaf í slíkum viðræðum er ekki alfarið ljóst hvernig þær munu fara. Það liggur fyrir af okkar hálfu að við sækjumst eftir góðum samskiptum við Evrópusambandið í framtíðinni. Við viljum fríverslunarsamning og við erum á móti reiðubúin að ganga frá öllum útistandandi skuldbindingum.“

„Við höfum verið gríðarlega sanngjörn. Hins vegar hefur Evrópusambandið enn ekki viljað ræða um framtíðartengsl Bretlands við sambandið og farið þannig gegn 50. grein Lissabon-sáttmálans þar sem segir að viðræðurnar skuli taka mið af rammasamkomulagi um framtíðartengsl viðkomandi ríkis við Evrópusambandið.“

Hafa ekki áhyggjur þótt ekki náist samningar

Spurður hvort Bretland muni til að mynda gerast aðili að EES-samningnum líkt og Ísland segir Jones að það komi ekki til greina. „Þegar við yfirgefum Evrópusambandið hættum við sjálfkrafa að vera aðilar að EES-samningnum í gegnum sambandið.“ Engar líkur séu að hans áliti á að Bretar gætu sætt sig við það sem fylgi samningnum.

David Jones.
David Jones. Ljósmynd/Breska þingið

Spurður hvað gerist ef ekki tekst að semja við Evrópusambandið um útgönguna segir Jones að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafi lýst því yfir með mjög skýrum hætti að betra sé fyrir Bretland að engir samningar náist en að fá slæman samning. Eftir sem áður leggi breskir ráðamenn áherslu á að landa samningi við sambandið.

„Ef þeir hins vegar eru ekki reiðubúnir til þess þá höfum við engar áhyggjur af því að yfirgefa Evrópusambandið án samnings við það og að eiga í viðskiptum við sambandið á forsendum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það gera flest ríki heimsins. Það virðist ekki standa Bandaríkjunum til dæmis fyrir þrifum í viðskiptum við það.“

Sama eigi við um Kína, Indland og fleiri ríki. „Staðreyndin er sú að ef þessi ríki geta átt í viðskiptum við Evrópusambandið á þessum forsendum þá er alveg ljóst að við gætum það líka. Það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að við verðum stærsti útflutningsmarkaður Evrópusambandsins þegar við höfum sagt skilið við sambandið.“

ESB tollabandalag en ekki fríverslunarsamtök

„Það verður annars að hafa í huga að Evrópusambandið er í grunninn tollabandalag en ekki fríverslunarsamtök og gengur þannig út á verndarhyggju sem stendur viðskiptum við afganginn af heiminum þannig fyrir þrifum og kemur niður á hagsmunum neytenda í ríkjum þess. Afstaða Evrópusambandsins snýst fyrst fremst um pólitík.“

„Þjóðverjar selja mjög mikið af bifreiðum til Bretlands og ég er ekki viss um að þýskir bifreiðaframleiðendur verði ánægðir ef það verður erfiðara og dýrara að flytja bifreiðar þangað og sama á við um Þjóðverja sem kunna að missa störfin sín vegna þess,“ segir Jones enn fremur. Ef málið snerist um viðskipti væri það miklu einfaldara.

Jones bendir á að ef efnahagsmál en ekki stjórnmál hefðu ráðið för hefði reyndar evrusvæðið aldrei orðið til. „Hvað sem annars öllu líður þá erum við að yfirgefa Evrópusambandið og munum gera það í lok mars 2019 óháð því hvort samningar nást við sambandið eða ekki. Það kemur einfaldlega ekki til greina að vera áfram innan Evrópusambandsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina