Forsetinn fordæmir aftöku

Ruben Cardenas Ramirez.
Ruben Cardenas Ramirez.

Forseti Mexíkó, Enrique Peña Nieto, hefur fordæmt aftöku á Mexíkóa sem var tekinn af lífi í Texas í gær. Maðurinn, Rubén Cárdenas Ramírez  47 ára, var dæmdur til dauða fyrir morðið á 16 ára gamalli frænku sinni fyrir 20 árum.

Ramírez var úrskurðaður látinn klukkan 22:26 að staðartíma, klukkan 4:26 að íslenskum tíma í nótt. Hann var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu þrátt fyrir að bæði Sameinuðu þjóðirnar og lögmenn hans hafi lýst yfir efasemdum um málsmeðferðina.

„Ég mun ekki og get ekki beðist afsökunar á glæpum annarra. En ég mun snúa aftur og krefjast réttlætis,“ segir í skriflegri yfirlýsingu sem Ramírez ritaði skömmu fyrir aftökuna. 

Hann var fundinn sekur um mannrán, nauðgun og morð á Mayra Laguna árið 1997. Í yfirlýsingu sinni þakkaði hann hverjum starfsmanni ríkisins sem reyndi að veita honum aðstoð.

Forseti Mexíkó fordæmir aftökuna á Twitter og segir hana brot á niðurstöðu Alþjóðadómstólsisn í Haag. Dauðarefsingar voru afnumdar í Mexíkó árið 2005 og hafði ríkið farið fram á það við Bandaríkin að ekkert yrði af aftökunni. 

Þetta er síst til þess að draga úr spennu milli ríkjanna sem er næg fyrir einkum vegna áætlana forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, um að reisa múr milli ríkjanna. Með því vonast Trump til þess að koma í veg fyrir að Mexíkóar flykkist til Bandaríkjanna.

Einn af lögmönnum Ramírez, Greg Kuykendall, áfrýjaði meðal annars til hæstaréttar til þess að koma í veg fyrir að aftakan færi fram í gærkvöldi án árangurs. 

Yfirvöld í Mexíkó telja að brotið hafi verið á Ramírez. Til að mynda þegar kom að verjandi og eins hafi hann ekki fengið þá aðstoð sem kveðið er á um í Vínarsamningnum um ræðissamband frá árinu 1963.

Ræðismaður Mexíkó í Austin, Texas, Carlos Gonzalez Gutierrez, segir að þetta snúist ekki um sekt eða sakleysi heldur virðingu fyrir mannréttindum og réttláta málsmeðferð.

Mannréttindasérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum hvöttu bandarísk yfirvöld til þess að taka hann ekki af lífi.

Með aftökunni sé verið að brjóta alþjóðlega mannréttindasáttmála, segja þær Agnes Callamard og Elina Steinerte, mannréttindasérfræðingar hjá SÞ.

Hann hafi ekki fengið aðgang að lögfræðingi fyrstu 11 dagana sem hann var í haldi, segja þær. Einhverjar af yfirlýsingum hans á þeim tíma voru hluti af saksókninni við réttarhöldin. Rubén Cárdenas Ramírez var heldur ekki upplýstur um rétt sem hann átti á ráðgjöf. 

Alþjóða glæpadómstóllinn taldi árið 2004 að Bandaríkin hefðu brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt alþjóðalögum að upplýsa ekki mexíkósk yfirvöld um að hafa handtekið 51 Mexíkóa, þar á meðal Cardenas Ramírez, og að þeim hafi verið synjað um lögvarinn rétt til aðstoðar frá stjórnvöldum í Mexíkó. Yfirvöld í Washington höfnuðu niðurstöðu dómstólsins á þeim tíma. 

Fjölskylda stúlkunnar sem var myrt fagnaði aftur á móti aftökunni í gærkvöldi. Mayra Laguna var rænt úr herbergi sem hún deildi með systur sinni í íbúð fjölskyldunnar í McAllen í Texas. Samkvæmt játningu Cardenas keyrðu hann og vinur hans um með stúlkuna, sem var á öðru ári í menntaskóla, um í bíl móður hans. Hann sagðist hafa haft mök við stúlkuna og síðan slegið hana þegar hún réðst á hann eftir að hann hafði losað hana en hann hafði bundið hendur hennar áður en hann nauðgaði henni.

 „Þetta átti ekki að fara svona en ég var undir miklum áhrifum kókaíns,“ sagði hann við yfirheyrslur hjá lögreglu. Hann sagðist hafa slegið hana á hálsinn og hún hóstað upp blóði í kjölfarið og lent í andnauð. Eftir að hafa reynt að endurlífga hana án árangurs hafi hann bundið hana og látið hana velta ofan í skurð. Lík hennar fannst síðar í skurðinum. 

Vinur Cardenas sem tók þátt í mannráninu, Jose Antonio Lopez Castillo, var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir aðild að málinu og er enn í fangelsi.

54 Mexíkóar hafa verið dæmdir til dauða í Bandaríkjunum og réttarhöld standa yfir 75 til viðbótar og eiga þeir yfir höfði sér dauðadóm. 

Í gær var Partrick Hannon einnig tekinn af lífi í Bandaríkjunum. Sú aftaka fór fram í Flórída en hann var fundinn sekur um tvöfalt morð árið 1991.

Hannon var dæmdur í janúar 1991 fyrir að hafa myrt Brandon Snider og Robert Carter í íbúð sem þeir leigðu saman í Tampa. 

Með aftökunum í gærkvöldi hafa 23 fangar verið teknir af lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári. 

mbl.is
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
Tölvuþjónusta
Alhliða tölvuviðgerð, vírushreinsun, vírusvarnir, gagnabjörgun og verðtilboð. F...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
 
Breyting á deiliskipulagi í flatey
Leikskólakennsla
Breyting á deiliskipulagi í Flat...
L edda 6018022019 i
Félagsstarf
? EDDA 6018022019 I Mynd af auglýsin...
Úthlutun
Tilkynningar
Auglýsing vegna úthlutunar byggð...
Félagslíf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa frá kl 9, ...