Svelta milljónir í hel

AFP

Ástandið er skelfilegt í Jemen og ekkert annað blasir við milljónum íbúa landsins en alvarleg hungursneyð. Það eina sem getur komið í veg fyrir þetta er að Sádi-Arabar og bandamenn hætti herkvínni og heimili flutning hjálpargagna til landsins. Þetta segir aðstoðarframkvæmdastjóri mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, Mark Lowcock. 

Loftárásir Sádi-Araba og samstarfsmanna þeirra hafa valdið miklu manntjóni og eyðileggingu í Jemen. Heilu hverfin hafa verið lögð í rúst og brýr, þjóðvegir og hafnarmannvirki hafa verið eyðilögð í lofthernaðinum. Bóndabýli og fiskibátar hafa einnig orðið fyrir loftárásum og mikill skortur er á matvælum og hreinu drykkjarvatni vegna átakanna. Þeir sem ekki deyja í loftárásunum eiga á hættu að verða hungurmorða. 

AFP

Alvarlegasta hungursneyðin í áratugi

Mark Lowcock varar við því að hætta sé á að hungursneyðin í Jemen verði sú alvarlegasta sem heimurinn hefur upplifað áratugum saman. Fórnarlömbin séu milljónir íbúa Jemen.

Lowcock ræddi við fréttamenn að loknum lokuðum fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Þar var ástandið í Jemen rætt en Sádi-Arabía og fleiri ríki hófu hernað þar í mars 2015. 

Líkt og fram kom í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í febrúar hefur saga Jemen verið róstusöm síðustu áratugi. Landið var lengi tvískipt vegna kalda stríðsins og sameinaðist ekki aftur fyrr en um það leyti sem Berlínarmúrinn féll. Deilurnar hafa, líkt og í fleiri arabalöndum, einkum verið á milli trúarhópa sjía- og súnnímúslima. Barátta þeirra endurspeglar að nokkru leyti valdataflið sem nú stendur yfir á milli Írana og Sádi-Araba um ítök í arabaheiminum.

AFP

Súnnímúslimar eru í meirihluta í Jemen og flestir þeirra búa í suður- og suðausturhluta landsins. Um 35-40% íbúanna eru svonefndir zaídar, sem tilheyra sjíafylkingunni innan íslams, og flestir þeirra búa í norður- og norðvesturhluta landsins. Vopnuð samtök zaída hafa verið kölluð Hútar og eru kennd við stofnanda sinn, klerkinn Hussein al-Houthi. Hútar hófu uppreisn árið 2004 gegn ríkisstjórn landsins sem var aðallega skipuð súnnímúslimum. Uppreisnarmennirnir beittu skæruhernaði með hléum þar til borgarastríð blossaði upp fyrir rúmum tveimur árum.

Hútar hafa notið stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. Þeir leystu þing Jemen upp og stofnuðu byltingarráð í byrjun ársins 2015. Forseti landsins, Mansur Hadi, flúði frá höfuðborginni Sanaa til hafnarborgarinnar Aden og óskaði eftir aðstoð stjórnvalda í Sádi-Arabíu. Þau hófu hernað gegn uppreisnarmönnunum með stuðningi fleiri arabalanda þar sem súnnímúslimar eru í meirihluta.

Öryggisráðið krefst þess að Sádi-Arabar og bandamenn þeirra haldi lofthelgi og höfnum Jemen opnum fyrir flutning á neyðarvistum til landsins. Hungursneyð blasir við sjö milljónum íbúa Jemen.

Fulltrúar í öryggisráðinu lýstu áhyggjum af ástandinu í Jemen og sögðu mikilvægt að allar hafnir landsins og flugvellir störfuðu með þeim hætti að hægt væri að flytja hjálpargögn til landsins. Þetta kom fram í máli fulltrúa Ítalíu í ráðinu, Sebastiano Cardi, en hann er í forsæti þess.  

AFP

Jemen er á lista Sameinuðu þjóðanna yfir staði þar sem ástandið er verst og gefa þær lítið fyrir skýringar Sádi-Araba um að loka hafi þurft landamærunum vegna árása Húta. Segja SÞ að ástandið sé þegar orðið hörmulegt.

Framkvæmdastjóri SÞ, Antonio Guterres, ræddi við utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir, í síma í gær og fékk þær upplýsingar að verið sé að skoða hvort hægt væri að opna landið fyrir hjálparsendingum. 

AFP

Um 17 milljónir Jemena eru í brýnni þörf fyrir mat og sjö milljónir þeirra eru á barmi hungursneyðar. Yfir tvö þúsund eru látnir úr kóleru.

Á þriðjudag var sending Rauða krossins með töflur sem notaðar eru gegn kóleru stöðvuð á landamærum Jemen í norðri, samkvæmt upplýsingum frá alþjóða Rauða krossinum.

Mannúðaraðstoð SÞ segir mjög brýnt að heimila flug til höfuðborgarinnar Sanaa, en hún er undir stjórn uppreisnarmanna og til borgarinnar Aden, sem er undir stjórn ríkisstjórnar landsins.

BBC birtir myndskeið með sinni frétt um ástandið í Jemen sem sýnir veruleikann sem blasir við íbúum landsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert