456 leikkonur stíga fram

Sænska leikkonan Sofia Helin.
Sænska leikkonan Sofia Helin. Wikipedia

Menningarmálaráðherra Svíþjóðar hefur kallað yfirmenn leikhúsa landsins á neyðarfund eftir að 456 leikkonur skrifuðu opið bréf þar sem þær greindu frá kynferðislegri áreitni í leiklistarheimi Svíþjóðar. Meðal þeirra eru margar af þekktustu leikkonum Svíþjóðar.

Bréfið er birt í Svenska Dagbladet og meðal þeirra sem rita undir eru Sofia Helin, sem fór með aðalhlutverkið í Brúnni, Alexandra Rapaport, Helena Bergström, Lia Boysen og Lena Endre.

Í bréfinu eru birtar upplýsingar um óásættanlega hegðun sem hefur viðgengist árum saman. Allt frá nauðgunum og kynferðislegs ofbeldis til kynferðislegrar áreitni. Hvorki fórnarlömb né gerendur eru nafngreind í bréfinu.

„Allt starfsfólkið og leikarar gistu á sama hóteli. Þegar ég sat þar ein síðar um kvöldið heyrði ég leikstjórann og manneskjuna sem lék eiginmann minn ræða um hvor þeirra fengi mig fyrst. Ég varð hrædd og fór inn í herbergið mitt á jarðhæðinni. Alla nóttina þóttist ég heyra í þeim reyna að koma inn til mín, bæði um dyr og glugga. Ég bað karlleikara sem ég hafði aldrei áður hitt um að vernda mig. Hann gerði það og ég er honum eilíflega þakklát fyrir það,“ segir í bréfinu.

„Ég var við tökur með einum af helstu karlstjörnum landsins. Hann kom og fór eins og honum hentaði, oft dópaður, drukkinn eða timbraður. Allt starfsfólkið beið eftir honum. Stundum í nokkrar klukkustundir. Þegar hann loks lét sjá sig snerist þetta um að halda honum góðum.

Við vorum saman í nokkrum viðkvæmum atriðum, stjarnan og ég. Hann mundi aldrei textann sinn og varð yfirmaður handritsins að lesa hann fyrir hann áður. Það var nánast ómögulegt að vinna við þessar aðstæður.

Einn daginn fór stjarnan með mig afsíðis. Sagði að ég yrði að skilja það að það væri ómögulegt fyrir hann að muna textann sinn þegar ég væri svona helvíti kynþokkafull og það eina sem hann gæti hugsað um væri hvernig ég liti út nakin og hvað hann langaði að gera við mig,“ skrifar önnur í bréfinu.

Kynferðislegri áreitni er lýst, einelti, hótunum og öðrum atriðum sem þessar konur hafa þurft að þola í starfi. Þar á meðal karlkyns vinnufélaga sem fróa sér fyrir framan þær, taka út á sér kynfærin fyrir framan þær eða neyða þær til þess að snerta kynfæri þeirra.

„Við ætlum ekki að þegja lengur,“ segja konurnar 456 sem rita undir bréfið. „Við ætlum að láta þá sem bera ábyrgð axla hana og réttarkerfið taka á því þegar það á við. Við skilum skömminni til þeirra sem eiga hana, til illvirkjans og þeirra sem verja hann.“

Alice Bah Kuhnke menningarmálaráðherra boðaði leikhússtjóra helstu leikhúsa landsins á sinn fund í gær.

„Ég gerði þeim grein fyrir því hversu alvarlega ríkisstjórnin lítur á þetta. Við krefjumst breytinga,“ segir hún í viðtali við Svenska Dagbladet eftir fundinn.

Spurð um hvernig henni hafi orðið við að lesa sögur leikkvennanna segir hún: „Ég fékk áfall, fylltist viðbjóði, komst í uppnám og varð reið.“

Milljónir hafa birt færslur undir myllumerkinu #metoo þar sem kynferðislegu ofbeldi, áreitni og nauðgunum er lýst.

Svenska Dagbladet

mbl.is
Akureyri - vönduð íbúðagisting
Vönduð og vel útbúin íbúðagisting. Uppábúin rúm, net og lokaþrif. Komdu á norður...
KRISTALL LJÓSAKRÓNUR Útsala
Glæsilegum kristalsljósakrónum, veggljósum, matarstellum, kristals glösum og ska...
Örlygur Sigursson
Til sölu nokkrar af bókum Örlygs Sigurðssonar, upp. í síma 8920213...
Leikjavefurinn Snilld - www.snilld.is
www.snilld.is - Frábært úrval af leikjum á leikjavefnum Snilld. Skelltu þér in...
 
Hádegisfundur ses
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna í Skóga- o...
Framhald suðurland
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, for...