Fannst látin í frystikistu

Lík Ragnhild Sandvold fannst í frystikistu á heimili hennar eftir …
Lík Ragnhild Sandvold fannst í frystikistu á heimili hennar eftir að hennar hafði verið saknað í nokkra daga sumarið 1999. Lögregla telur að um sjálfsmorð hafi verið að ræða en sonur Sandvold telur það útilokað. ljósmynd/Amazon

Þegar lögreglu barst tilkynning sumarið 1999, um að Ragnhild Kamilla Sandvold, 44 ára gömul þriggja barna móðir frá Søgne í Vest-Agder, skammt frá Kristiansand í Noregi, væri horfin og ekkert hefði til hennar spurst, var umfangsmikil leit hafin. Henni lauk með því að helfrosið lík Sandvold fannst 9. júlí í frystikistu á hennar eigin heimili.

Var líkfundurinn börnunum þremur mikið áfall og ekki bætti úr skák þegar lögregla úrskurðaði eftir stutta rannsókn að um sjálfsmorð hefði verið að ræða og ekki væri ástæða til að ætla að saknæm háttsemi hefði átt sér stað.

Elsta barn hinnar látnu, Raymond-Ingerseth Sandvold, sem var 21 árs gamall þegar málið kom upp, hefur barist fyrir endurupptöku málsins æ síðan og meðal annars bent á að pappakassi, sem stóð ofan á loki frystikistunnar, hefði ekki með nokkru móti getað komist þangað fyrir tilstilli móður hans sem auk þess hafi verið haldin miklum innilokunarótta og því seint kosið sér þann dauðdaga að loka sig ofan í þröngu rými og bíða dauðans. Hitastigið í kistunni var -18 gráður en við þær aðstæður hefði hún látist á 60 – 90 mínútum að mati sérfræðinga hjá rannsóknarstofnun Noregs í réttarmeinafræði.

Mikið magn róandi lyfja í blóði hinnar látnu

Terje Kaddeberg Skaar, yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í Agder-lögregluumdæminu, segist í samtali við norska dagblaðið VG hafa heyrt alla gagnrýnina á rannsókn málsins áður og henni hafi einnig verið svarað áður. Farið hafi verið yfir öll gögn málsins á nýjan leik en sú vinna hafi skilað sömu niðurstöðu og árið 1999 – um sjálfsmorð hafi verið að ræða.

Raymond-Ingerseth Sandvold hefur nú kært málið til ríkissaksóknara Noregs og krafist endurupptöku en svo virðist sem víða hafi verið pottur brotinn í upphaflegri rannsókn, til dæmis hafi sýni úr krufningu hinnar látnu verið send rannsóknarstofnun í réttarmeinafræði en lögregla kallað eftir þeim þaðan, áður en þau voru rannsökuð, og eytt þeim.

Þá greindi sjónvarpsstöðin TV2 frá því í október að við krufninguna hafi svo mikið magn róandi lyfja fundist í blóði Sandvold að ekki hafi verið hægt að slá því föstu að hún hafi verið með meðvitund þegar hún fór ofan í frystikistuna.

TV2 kallar málið „frystikistuleyndardóminn“ og segir, að úrskurði ríkissaksóknari að málið skuli tekið upp á ný verði nú hægt að rannsaka að nýju DNA-sýni sem fundust á vettvangi þar sem nú sé tækni við erfðarannsóknir í sakamálum komin mun lengra en var um aldamótin.

Embætti ríkissaksóknara hefur þó, eftir því sem VG kemst næst, ekki skráð kæru sonarins á málaskrá sína þar sem fylkissaksóknarinn í Agder þarf fyrst að fjalla um málið áður en æðra stjórnvald getur tekið það fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert