Leita í örvæntingu í rústunum

AFP

Eyðileggingin blasir víða við í Norður-Írak og Íran eftir að jarðskjálfti upp á 7,3 stig reið þar yfir í gærkvöldi. Alls staðar er fólk að leita að ættingjum og vinum en vitað er að yfir 340 létust og tæplega fimm þúsund slösuðust.

Nizar Abdullah, 34 ára, hefur í alla nótt leitað í rústum tveggja hæða húss í bænum  Darbandikhan í Kúrdistan í Norður-Írak. „Það voru átta inni í húsinu,“ segir Abdullah þegar fréttamenn AFP-fréttastofunnar hitta hann við brakhrúgu sem áður var heimili. Einhverjir björguðust en nágrannar og björgunarfólk eru búnir að finna móðurina og eitt barna hennar látið í rústunum. 

AFP

Í Íran er vitað að 336 létust og 3.950 slösuðust á meðan átta eru látnir í Írak og 535 slasaðir. Skjálftinn átti upptök sín í 30 km fjarlægð frá bænum Halabja í Kúrdistan. Flestir bæjarbúar voru heima þegar skjálftinn reið yfir. „Allt í einu sló rafmagnið út og ég fann gríðarmikinn skjálfta,“ segir Loqman Hussein. „Ég hljóp strax út úr húsinu ásamt fjölskyldu minni,“ segir hann.

AFP

Akram Wali segir að margar fjölskyldur í Darbandikhan hafi forðað sér í skjól hjá ættingjum fyrir utan bæinn af ótta við að Darbandikhan-stíflan myndi bresta. Allt bendir hins vegar til þess að stíflan muni halda. 

Tyrkir hafa sent björgunarsveitir á vettvang og eins hjálpargögn enda þörfin mikil í fjallaþorpum ríkjanna tveggja.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert