Slátrarinn frá Bosníu hetja í huga margra

Minningarreitur um átta þúsund drengi og karla sem teknir voru …
Minningarreitur um átta þúsund drengi og karla sem teknir voru af lífi í Srebrenica. AFP

Radko Mladić, fyrrverandi hershöfðingi sem stjórnaði hersveitum Bosníu-Serba, betur þekktur undir heitinu „Slátrarinn frá Bosníu“, bíður enn niðurstöðu stríðsglæpadómstólsins í Haag en hann er ákærður fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu. Ýmsir í heimalandi hans eru sannfærðir um sakleysi hans.

Dusko Mladić, náinn ættingi Radko Mladić.
Dusko Mladić, náinn ættingi Radko Mladić. AFP


„Ég ábyrgist að hann er ekki sekur um eitt einasta morð,“ segir Dusko Mladić við fréttamann AFP og bendir á ljósmynd af hjartfólgnum frænda sínum. Í næstu viku kemur í ljós hvort dómarar í Haag eru á sama máli varðandi aðgerðir slátrarans í Bosníustríðinu 1992-1995.

Ratko Mladić er þekktastur fyrir hlutverk sitt í 44 mánaða umsátri um Sarajevo og morðin á átta þúsund múslímum, körlum og drengjum, í Srebrenica.

Ratko Mladić var yfirmaður hers Bosníu-Serba og er sakaður um að bera ábyrgð á mestu fjöldamorðum sem framin hafa verið í Evrópu frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Hann var handtekinn í Serbíu í maí 2011 eftir að hafa verið eftirlýstur fyrir stríðsglæpi í sextán ár.

Stríðsglæpadómstóllinn ákærði Mladić í júlí 1995 og gefin var út alþjóðleg handtökutilskipun á hendur honum árið 1996.

Ekkjur og mæður í Srebrenica hafa ekki gleymt verkum hers …
Ekkjur og mæður í Srebrenica hafa ekki gleymt verkum hers Bosníu-Serba í borginni. AFP

Mladić hafðist lengi við í jarðbyrgi hers Bosníu-Serba í bænum Han Pijesak og bauð hersveitum Atlantshafsbandalagsins birginn, hótaði að baða sig í blóði hermanna ef þeir reyndu að handtaka hann.

Á þessum tíma fór hann oft til Belgrad þar sem fjölskylda hans bjó og að lokum settist hann þar að. Ekki er hægt að segja að hann hafi verið í felum í Belgrad því hann sást þar oft á veitingahúsum og á fótboltaleikvangi í borginni.

Þetta breyttist þegar stjórn Slobodans Milosevic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu, var steypt af stóli í október 2000. Mladić fór í felur þegar Milosevic var handtekinn árið 2001 og framseldur til stríðsglæpadómstólsins í Haag.

Stjórnvöld í Serbíu neituðu því lengi að þau vissu af fylgsni Mladić en viðurkenndu síðar að hann hefði verið undir verndarvæng hersins fram á mitt árið 2002 og fengið eftirlaun frá hernum til desember 2005. Serbnesk yfirvöld aðhöfðust lítið sem ekkert gegn Mladić þar til Boris Tadic varð forseti Serbíu árið 2004. 

Handtaka Mladić hafði legið í loftinu frá því að Radovan Karadzic, forseti Bosníu-Serba, var tekinn höndum í Belgrad í júlí 2008. Mladić var loks handtekinn í serbneska bænum Lazarevo, um 86 kílómetra suðvestan við Belgrad og nálægt landamærunum að Rúmeníu, 26. maí 2011.

Radko Mladić.
Radko Mladić. AFP

En í þorpinu Bozanovici, þaðan sem Mladić er, og víðar í Bosníu-Serbíu (Republika Srpska) er herforinginn, sem er 74 ára að aldri, álitinn þjóðhetja fyrir hlutdeild sína í borgarastríðinu.

„Ef dómararnir þekktu hann, þó ekki nema væri 60%, eins og ég geri, væri hann sýknaður og heiðraður um leið,“ segir Dusko.

Réttarhöldin yfir slátraranum frá Bosníu hafa staðið yfir frá því árið 2012 við stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag. 22. nóvember verður dómurinn kveðinn upp en ákæruliðirnir eru 11 talsins. Má þar nefna þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Um 100 þúsund manns voru drepir í stríðinu og 2,2 milljónir lentu á vergangi vegna átakanna.

Þorpið Bozanovici.
Þorpið Bozanovici. AFP

Í bænum Bozanovici, sem er í austurhluta Bosníu, býr Dusko við götu sem ber nafnið Stræti Mladić herforingja. Við sömu götu fæddist Ratko Mladić.

Dusko minnist þeirra tíma þegar Mladić kom í heimsókn í þorpið í leyfum frá her Júgóslavíu  og tók þátt í heyskap og bjó til leikfangabyssur úr tré fyrir börnin í fjölskyldunni. Hann er stoltur þegar hann sýnir fréttamanni AFP flösku af heimatilbúnu ávaxtakoníaki sem skartar mynd af frænda á flöskunni. „Ef við styðjum réttlæti, sannleika og Guð þá verður hann sýknaður,“ segir Dusko.

Bosníustríðinu lauk með samningi um skiptinu Bosníu í tvennt, Bosníu-Serbíu og Bosníu-Hersegóvínu. 

Stræti Mladić herforingja.
Stræti Mladić herforingja. AFP

Þjóðhetja sama hvað gerist

Í Bosníu-Serbíu, þar sem um ein milljón Serba býr, er Mladić þjóðhetja sama hvað gerist, segir Momcilo Krajisnik, 72 ára fyrrverandi forseti þings landsins. Krajisnik var sjálfur dæmdur í 20 ára fangelsi af dómstólnum í Haag en látinn laus árið 2013. Var honum fagnað sem þjóðhetju við komuna til heimalandsins.

Þrátt fyrir að í Srebrenica hafi verið komið fyrir þúsundum hvítra steina í minningu um þá fjölmörgu sem teknir voru af lífi á þremur dögum í júlí 1995 er álit Bosníu-Serba á Mladić óbreytt.

Bosníumúslími sem lifði voðaverkin af syrgir við gröf ættmenna sinna …
Bosníumúslími sem lifði voðaverkin af syrgir við gröf ættmenna sinna í Srebrenica. AFP

8.372 nöfn er ekki nákvæm tala

Mladen Grujicic, sem er 35 ára og bæjarstjóri í Srebrenica, segir að talan á minningarskildinum, 8.372, sé ekki nákvæm. „Mladić framdi engan glæp persónulega,“ segir hann. 

Í bænum Pale búa margir þeirra sem tóku þátt í umsátrinu um Sarajevo á sínum tíma en Sarajevo er í aðeins 15 km fjarlægð frá Pale.

„Allir íbúar Bosníu-Serbíu myndu fagna sýknu,“ segir Janko Seslija, forseti samtaka fyrrverandi hermanna. Hann lýsir Mladic sem serbneskum de Gaulle og vísar þar til fyrrverandi forseta og herforingja Frakka, Charles de Gaulle.

Ratco Mladić í réttarsalnum árið 2012.
Ratco Mladić í réttarsalnum árið 2012. AFP

Hjúkrunarfræðingurinn Jelena Sekara telur að það muni taka langan tíma að finna annan eins föðurlandsvin og Mladić sem barðist gegn alþjóðlegum glæpamönnum og fasistum.

Mile Kosoric, 64 ára fyrrverandi hermaður sem barðist undir stjórn Mladić, heldur því fram að honum hafi aldrei verið fyrirskipað að fremja glæpi og hann hafi aldrei heyrt herforingjann krefjast þess af neinum.

„Ég held að ef við hefðum ekki varið okkur þá værum við ekki lengur á lífi,“ segir Kosoric, sem býr í Han Pijesak, skammt frá höfuðstöðvum hers Mladić á sínum tíma.

Heiðraður fyrir störf sín

Krajisnik er með viðurkenningu uppi á vegg á bensínstöð sinni í úthverfi Pale. Undir viðurkenninguna ritar leiðtogi Bosníu-Serba, Milorad Dodik. Krajisnik segir að Serbar telji að stríðsglæpadómstóllinn hafi verið settur upp til höfuðs Serbum. Þeir hafi verið dæmdir fyrir glæpi sem aðrir hafi ekki einu sinni verið ákærðir fyrir. Hann varar við því að hatrið sem var sáð á tíunda áratugnum verði erfitt að uppræta. 

Naser Oric var sýknaður af ákæru um að hafa framið …
Naser Oric var sýknaður af ákæru um að hafa framið stríðsglæpi í Bosníustríðinu. AFP

Ekki dragi úr hatrinu að Naser Oric, sem var herforingi Bosníuhers í Srebrenica, hafi verið sýknaður nýverið í réttarhöldum í Sarajevo af ákæru um stríðsglæpi. „Þetta er skammarlegasta dómsniðurstaða sögunnar,“ segir bæjarstjórinn í Srebrenica, Grujicic. 

Mikla athygli vakti þegar Grujicic var kjörinn bæjarstjóri í Srebrenica þar sem hann er þjóðernissinnaður Serbi. Srebrenica er í Bosníu-Hersegóvínu. Grujicic neitar því að framin hafi verið þjóðarmorð í bænum og ásakanir í garð Serba séu upplognar af alþjóðlegum aðilum og Bosníumönnum.

Guardian

New York Times

Balkan Inside

BBC 

mbl.is

Bloggað um fréttina