Toto Riina liggur fyrir dauðanum

Riina var kallaður „Skepnan“ enda þótti hann vera hinn mesti …
Riina var kallaður „Skepnan“ enda þótti hann vera hinn mesti fantur. Hann liggur nú fyrir dauðanum. AP

Toto Riina, sem áður var einn æðsti guðfaðir sikileysku mafíunnar og sá sem flestir óttuðust, liggur nú fyrir dauðanum að sögn ítalskra fjölmiðla.

Riina varð 87 ára í dag og hefur barist við krabbamein um hríð. Ítalskir læknar settu hann í lyfjadá fyrr í vikunni eftir að heilsu hans hrakaði verulega í kjölfar tveggja aðgerða sem gerðar voru á honum.

Riina hefur setið í fangelsi frá 1993, er hann var dæmdur til að sitja af sér 26 lífstíðardóma, en talið er að hann hafi fyrirskipað dráp á rúmlega 150 manns. Honum hefur verið bannað að fá gesti í heimsókn á meðan hann hefur setið í fangelsi og er það meðal þeirra ströngu reglna sem eru gerðar varðandi vistun mafíuliðsmanna.

Í dag heimilaði Andrea Orlando, heilbrigðisráðherra Ítalíu, hins vegar að fjölskylda Riina fengi að kveðja hann og var búist við að kona hans og ein dætra heimsæktu hann í sjúkradeild fangelsisins í Parma.

Þrjú barna guðföðurins hafa heimild til að kveðja hann, en elsti sonur Riina situr í fangelsi eftir að hafa verið dæmdur til lífstíðarvistar þar eftir að hafa verið fundinn sekur um fjögur morð.

„Þú ert ekki Toto Riina fyrir mér. Þú ert bara pabbi minn og ég óska þér til hamingju með afmælið á þessum sorglega en mikilvæga degi,“ skrifaði Salvatore sonur hans í færslu á Facebook í dag.

Riina óskaði eftir að verða látinn laus úr fangelsi í júlí á þessu ári á grundvelli hrakandi heilsu sinnar, en þeirri beiðni var hafnað eftir að dómstóll úrskurðaði að hann nyti jafngóðrar læknisþjónustu innan fangelsisveggjanna og hann myndi gera utan þeirra.

Mafíuforingi dæmdur í lífstíðarfangelsi

Læknar segja að Riina sé skýr á köflum. Hann náðist á hljóðupptöku fyrr á þessu ári og sagði þá að hann „iðraðist einskis [...] Þeir munu aldrei brjóta mig, jafnvel þó að þeir láti mig vera 3.000 ár í fangelsi“.

Þau morð sem Riina fyrirskipaði, og sem vöktu hvað mesta athygli, voru morðin á dómurunum Giovanni Falcone og Paolo Borsellino, sem höfðu unnið ötullega að því að rétta yfir rúmlega 300 liðsmönnum mafíunnar.

Þá stóð Riina einnig á bak við röð sprengjuárása í Róm, Mílanó og Flórens sem kostuðu 10 manns lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert