Fundu handlegg í Køgeflóa

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen.
Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen. AFP

Lögregla í Kaupmannahöfn fann handlegg á hafsbotni í Køgeflóa fyrir utan Kaupmannahöfn í dag. Handleggurinn fannst á því svæði þar sem talið er að kafbátur danska uppfinningamannsins Peter Madsen hafi siglt áður en honum var sökkt í ágúst. Hann situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall. Danska ríkissjónvarpið greinir frá.

Lögreglan segist ekki vita hverjum handleggurinn gæti tilheyrt. Madsen hefur ít­rekað neitað að hafa myrt Wall, hann hef­ur gefið marg­ar og mis­mun­andi skýr­ing­ar en hann hef­ur viður­kennt að hafa sund­urlimað lík henn­ar og hent í sjó­inn. 

„Við vitum ekki enn hverjum handleggurinn tilheyrir og vitum heldur ekki hvort þetta er hægri eða vinstri handleggur. Hins vegar göngum við út frá því að hann tengist kafbátsmálinu,“ segir lögreglumaðurinn Jens Møller Jensen í tilkynningu. 

Handleggurinn verður rannsakaður frekar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert