Kallaði Trump „leikskólakrakka“

Donald Trump Bandaríkjaforseti með H.R. McMaster þjóðaröryggisráðgjafa og Rex Tillerson …
Donald Trump Bandaríkjaforseti með H.R. McMaster þjóðaröryggisráðgjafa og Rex Tillerson utanríkisráðherra. AFP

Þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hershöfðinginn H.R. McMaster, er sagður hafa kallað forsetann „leikskólakrakka“ í einkasamkvæmi í júlí. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að McMaster hafi kallað Trump „fábjána“ og „fífl“ og bætt því við að hann hefði gáfnafar á við „leikskólakrakka“.

Fullyrt er að hershöfðinginn hafi ennfremur gagnrýnt ýmsa aðra í stjórnarliði forsetans. Þar á meðal James Mattis varnarmálaráðherra, fyrrverandi ráðgjafa Trumps Steve Bannon og tengdason forsetans Jared Kushner.

Þá segir í fréttinni að McMaster hafi sagt að Trump skorti skynsemi til þess að skilja þau mál sem lægju fyrir þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna.

Talsmenn bandarískra stjórnvalda hafa vísað því á bug að McMaster hafi látið þessi orð falla um Trump og fullyrt að þeir sem tekið hafi þátt í samkvæminu kannist ekkert við þau.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúi í stjórnarliði Trumps er sagður hafa viðhaft slík ummæli. Þannig var greint frá því í síðusta mánuði að Rex Tillerson utanríkisráðherra hefði kallað forsetann hálfvita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert