Fimmtán tonn af bóluefni til Jemen

Flugvél á vegum Sameinuðu þjóðanna full af nauðsynlegum bóluefnum lenti í höfuðborg Jemen í dag. Her Sádi-Araba hefur í þrjár vikur stöðvar allt flug til borgarinnar. Flugstjórnunarkerfi eyðilögðust fyrir nokkru eftir loftárás Sáda á flugvöllinn.

Þrjár aðrar flugvélar sem m.a. fluttu hjálparstarfsmenn Rauða krossins, lentu einnig í Sanaa í dag. 

Sádi-Arabar hafa tekið þátt í borgarastríðinu í Jemen af fullum krafti frá árinu 2015. 

Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa varað við því að með því að banna flug til og frá landinu sem og komu skipa hafi lífi þúsunda íbúa landsins verið ógnað. Þeir segja brýnt að koma frekari neyðargögnum til landsins, m.a. matvælum og lyfjum. 

Birgðirnar sem komu í dag duga engan veginn til að slá á versta ástandið, að sögn starfsmannanna. Sameinuðu þjóðirnar hafa farið fram á vopnahlé svo að hægt verði að bjarga lífum fólks. 

Barnaveiki breiðist nú hratt út um Jemen. Meðal hjálpargagna í flugvélinni í dag voru bólefni gegn henni. Á þessu ári hafa um 2.000 Jemenar látist úr kóleru sem hefur geisað af miklum krafti í landinu síðustu misseri. Um 8.600 manns hafa fallið í átökunum í Jemen frá því að Sádar hófu afskipti af borgarastríðinu.

Nokkur tonn af bóluefni voru flutt til Jemen með flugi …
Nokkur tonn af bóluefni voru flutt til Jemen með flugi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert