Gosmökkur í 4.000 metra hæð

Gríðarlega mikinn reyk og gufu leggur frá eldfjallinu Agung í …
Gríðarlega mikinn reyk og gufu leggur frá eldfjallinu Agung í dag. AFP

Gosmökkur stígur marga kílómetra til himins frá eldfjallinu Agung á indónesísku eyjunni Balí í dag. Flugferðir hafa verið felldar niður og þúsundir túrista komast hvorki lönd né strönd.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að reykur og gufa stígi nú um 4.000 metra upp til himins. Að minnsta kosti 28 flugferðum til og frá eyjunni hafi verið frestað eða þeim aflýst nú í morgun, að sögn talsmanns flugvallarins á Balí.

Almannavarnir í Indónesíu hafa varað við að eldgos sé í vændum og að líklega muni því fylgja mikil gosaska. Flugvöllurinn var þó opinn í gærkvöldi en í morgun hefur röskun orðið á starfseminni. Völlurinn er enn opinn og því undir hverju og einu flugfélagi komið hvort  það taki þá áhættu að fljúga til eyjunnar miðað við viðvaranir.

Að minnsta kosti 2.000 ferðamenn, aðallega frá Ástralíu komust ekki með flugi frá eyjunni í morgun.

„Ég á að vera mættur í vinnu á morgun. Hvernig á ég að borga reikningana mína?“ sagði Jake Vidler frá Sydney við AFP.

Einnig hefur innanlandsflug raskast í dag, m.a. til eyja í nágrenninu. 

„Ég er búin að fá endurgreiðslu frá flugfélaginu mínu. Ég er að reyna að komast frá Balí með báti. Vonandi er höfnin enn opin,“ segir annar ferðamaður.

Agung gaus síðast árið 1963. Þá létust tæplega 1.600 manns. Síðustu daga hefur reyk lagt frá fjallinu. Íbúar í næsta nágrenni þess hafa þegar verið beðnir að yfirgefa svæðið.

Íbúar á Balí fylgjast með eldfjallinu Agung í morgun.
Íbúar á Balí fylgjast með eldfjallinu Agung í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert