Borgað fyrir að líta framhjá flóttamönnum

Flóttamannafjölskylda í Thessaloniki í Grikklandi. Margir flóttamenn og hælisleitendur leita …
Flóttamannafjölskylda í Thessaloniki í Grikklandi. Margir flóttamenn og hælisleitendur leita allra leiða og forðast í lengstu lög að skrá sig í Grikklandi vegna Dyflinarreglugerðarinnar. AFP

Sýrlendinginum Aras verða á mistök á flugvellinum í Aþenu er hann beygir til hægri í staðinn fyrir að beygja til vinstri og fyrir vikið lendir hann ekki hjá flugvallastarfsmanninum sem búið var að borga fyrir að hleypa honum í gegn með fölsku skilríkin sín.

Honum er í kjölfarið vísað á brott af flugvellinum. „Hvað gerist. Hvert fórstu?“ spyr smyglarinn öskuillur þegar hann hittir Aras aftur. „Ég fór til vinstri, ég hélt að það væri hægri röðin, ekki hægri hlutinn,“ svarar Aras sem er sjálfur reiður og verður nú að leita annarra leiða til að sameinast fjölskyldu sinni í Þýskalandi.

Danska ríkisútvarpið DR og þýska sjónvarpsstöðin ZDF hafa undanfarið ár fylgst með smyglurum og nokkrum viðskiptavina þeirra, þar sem m.a. er fylgst með sölu á fölskum skilríkjum og hvernig smyglararnir greiða flugvallarstarfsfólki fyrir að horfa fram hjá fölsku skilríkjunum svo hælisleitendurnir komist á áfangastað.

„Ég hjálpa fólki“

Yahya er einn smyglaranna og í Grikklandi er hann með fyrirtæki utan um flutninginn. Aras leitar til hans eftir fyrstu misheppnuðu tilraun sína.

„Ég tel ekki að þetta sé ólöglegt eða skammarlegt,“ segir Yahya. „Ég hjálpa fólki.

Samkvæmt skýrslu Europol í fyrra, þá er minna um smygl á fólki í gegnum flugvelli, en eftir öðrum leiðum. Europol telur þó líklegt að þeim fari fjölgandi sem reyni að komast á áfangastað með þeim hætti, enda hefur landamæraeftirlit verið hert. Flugið er dýrara, en líkurnar á að það takist þykja líka betri.

Þá fá smyglararnir ekki greitt nema þeim takist að koma hælisleitendunum um borð í flugvélina og eiga því á hættu að sitja uppi með útgjöldin.

Leynileg vegabréfaverkstæði í Grikklandi

Yahya þarf því að leggja út fyrir farmiða fyrir Aras, auk fölsku skilríkjanna sem þurfa að vera í góðum gæðum til sleppa í gegnum landamæraeftirlit í Evrópu.

DR segir suma smyglara nýta sér dulnetið við kaup á fölskum skilríkjum, en aðrir séu félagar í lokuðum Facebook-hópi.

Yahya nýtir sér hins vegar þjónustu á leynilegum vegabréfaverkstæðum í Grikklandi sem fáir vita af.

Hann segir Aras að raka skegg sitt og klippa hárið svo hann líkist myndinni sem mest, áður en hann reynir aftur að komast í gegn. Að þessu sinni nær hann alla leið að flugvélahliðinu, en getur þá ekki svarað þeim fjölda spurninga sem starfsmaður leggur fyrir hann og er því aftur rekinn út af flugvellinum.

Yahya fær því ekki greitt.

„Fólk heldur að við verðum milljónamæringar á þessu, en svo er ekki. Þetta er eins og veðmál. Mjög oft þá tapar maður,“ segir Yahya.

Því dýrara því betri ferðin

Dyflinareglugerðin felur hins vegar í sér að margir flóttamenn og hælisleitendur gera það sem þeir geta til að sleppa við að skrá sig í Grikklandi, auk þess sem flóttamannabúðir í landinu eru yfirfullar og Aras líkt og margir aðrir óttast að verða strandaglópar þar.

Þess vegna leita þeir á náðir smyglara. „Kostnaðurinn fer eftir því hvaða leið er valin. Maður getur farið leið sem kostar 1.600, 2.000, 3.500 eða 5.000 evrur. Það er jafnvel líka hægt að fara fyrir 9.000 evrur. Því meira sem maður borgar því betri er ferðin. Allt hefur sitt verð,“ segir Aras.

Sjálfur mun hann borga 5.000 evrur, eða andvirði 615.000 kr. takist Yahya að koma honum um borð í flug.

Souda-flóttamannabúðirnar í borginni Chios í Grikklandi eru reknar af staðaryfirvöldum.
Souda-flóttamannabúðirnar í borginni Chios í Grikklandi eru reknar af staðaryfirvöldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert