Fékk 2 ára dóm fyrir færslu á samfélagsmiðlum

Ekki er óalgengt að fólk fái fangelsisdóma í Rússlandi fyrir ...
Ekki er óalgengt að fólk fái fangelsisdóma í Rússlandi fyrir færslur á samfélagsmiðlum. mbl.is/Golli

Dómstóll í Sankti Pétursborg dæmdi í dag rússneskan karlmann til tveggja ára vistar á fanganýlendu fyrir að móðga háttsetta embættismenn á samfélagsmiðlum.

Vladimir Timoshenko var fundinn sekur um að hafa skrifað færslur á rússneska samfélagsmiðlinum  Vkontakte sem „innihéldu niðrandi og móðgandi ummæli um háttsetta embættismenn,“ segir í dómsúrskurðinum.

Færslurnar skrifaði Timoshenko árið 2015, er hann sat af sér sex ára fangelsisdóm að því er segir í yfirlýsingunni. Ekki er þó gefið upp fyrir hvað hann sat inni.

Í færslunni, sem nú er horfin af Vkontakte, hvatti Timoshenko Rússa til að rísa upp gegn „óvinsælli stjórn“.

Ekki er óalgengt að fólk fái fangelsisdóma í Rússlandi fyrir færslur á samfélagsmiðlum. Þannig var maður dæmdur til tveggja ára vistar á fanganýlendu í desember í fyrra fyrir að gagnrýna á netinu árásir Rússa á Sýrlandi.

Þá hlaut rússneskur verkfræðingur 27 mánaða dóm fyrir að deila á samfélagsmiðlum greinum sem studdu úkraínsk stjórnvöld.

mbl.is