„Fólk er náttúrlega hrætt“

Vinkonurnar Védís Elsa Guðmundsdóttir og Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir eru staddar …
Vinkonurnar Védís Elsa Guðmundsdóttir og Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir eru staddar á Balí. ljósmynd/Úr einkasafni

„Við reynum bara að horfa jákvætt á þetta þó að þetta setji mikið strik í ferðalagið,“ segir Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir, sem stödd er á indónesísku eyjunni Balí ásamt vinkonu sinni, Védísi Elsu Guðmundsdóttur. Yfirvöld á eyjunni hafa lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi vegna eldfjallsins Agung, sem óttast er að gjósi af miklum krafti á næstunni.  

Vinkonurnar eru á ferðalagi um heiminn og áttu í gær flug til Ástralíu eftir að hafa dvalist á Balí. Fluginu var hins vegar aflýst, og komast þær því ekki af eyjunni eins og þúsundir annarra ferðamanna.

„Við fórum á flugvöllinn og það var margt fólk þar, bæði að reyna að breyta fluginu sínu og aðrir að drífa sig heim áður en öllu flugi yrði aflýst eins og staðan er orðin í dag,“ segir Elma. Vinkonurnar voru bókaðar í nýtt flug á miðvikudag, en allt lítur þó út fyrir að þær komist ekki heldur þá vegna viðbúnaðarins.

AFP

Grátt yfir og dökkur gosmökkur

Spurð um það hvort hún hafi séð gosmökkinn úr fjallinu svarar Elma játandi. „Í fyrradag vorum við á Gili-eyjum og fórum með bát til Balí aftur og þegar við komum í land vorum við 20 km frá fjallinu. Þar sáum við gosmökkinn,“ segir hún og bætir við að það hafi verið undarleg sjón:

„Það var mjög skrítið því þegar við litum í átt að fjallinu var mjög grátt yfir og dökkur gosmökkur stóð upp í loftið og svo þegar við litum í hina áttina var sól og heiðskírt.“

„Það ræður enginn við eldgos“

Um 100 þúsund manns hef­ur verið gert að yf­ir­gefa hættu­svæði um­hverf­is Agung. „Það er búið að rýma allt sem er í 8-10 km fjarlægð frá fjallinu, og fólk er náttúrlega hrætt,“ segir Elma. „Það er ömurlegt fyrir fólk að flýja heimili sitt og vita ekkert hvað gerist næst eða hvenær þetta tekur enda.“

Eldgosið hefur sett strik í reikninginn hjá Védísi og Elmu.
Eldgosið hefur sett strik í reikninginn hjá Védísi og Elmu. ljósmynd/Úr einkasafni

Þær vinkonur eru nú staddar í 50 km fjarlægð frá fjallinu svo þær verða minna varar við eldgosið. „Fólkið hérna þar sem við erum er voðalega rólegt og er ekki að sjá að eitthvað sé í gangi,“ segir hún. „Við höfum nánast ekkert heyrt fólk tala um þetta hérna. Við heyrðum að það mætti lítið tala um þetta til að hræða ekki fólk, þannig að allt sem við vitum höfum við þurft að spyrja um eða lesa í fréttum.“

Loks segir hún vinkonurnar taka breytingum á ferðalaginu af ró, og þær reyni að líta á björtu hliðarnar. „Við þurfum bara að bíða og vona það besta, það ræður enginn við eldgos,“ segir Elma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert