Hvernig getur kafbátur horfið?

Leitarvél frá bandaríska hernum flýgur yfir svæðið þar sem kafbáturinn …
Leitarvél frá bandaríska hernum flýgur yfir svæðið þar sem kafbáturinn var er síðast náðist samband við hann. AFP

Leitin að argentínska kafbátnum San Juan hefur enn engan árangur borið. Ekkert hefur spurst til hans í ellefu sólarhringa. En hvernig getur kafbátur einfaldlega horfið?

Umfangsmikil leit stendur enn yfir og að minnsta kosti þrettán þjóðir aðstoða við hana, m.a. Bandaríkjamenn, Bretar og Rússar. Leitarsvæðið er um 480 þúsund ferkílómetrar að stærð. 

Þegar síðast náðist samband við áhöfn kafbátsins tilkynnti hún um bilun í rafkerfi. Þá bað stjórnstöð skipstjórann að sigla beinustu leið til heimahafnar. En þangað kom hann aldrei.

Ástvinir áhafnarinnar eru flestir búnir að missa vonina um að einhver kunni enn að vera á lífi um borð. Það gerðist m.a. í kjölfar þess að fregnir bárust af því að sprenging hefði heyrst á svæðinu þar sem síðast náðist samband við bátinn um það leyti sem hann lét vita af sér. Argentínski herinn hefur staðfest að hljóðið sé líklega vegna sprengingar en hefur þó ekki viljað gefa út að leitin sé vonlaus. Því er henni haldið áfram af fullum krafti og gengið er út frá því að enn sé einhver á lífi um borð.

Það þykir þó ólíklegt því að kafbátar þurfa að koma reglulega upp á yfirborðið til að endurnýja súrefnisbirgðir sínar. San Juan er gamall, hann var smíðaður í Þýskalandi á níunda áratugnum. Súrefnisbirgðir endast að því er talið er í mesta lagi í viku, komist báturinn ekki upp á yfirborðið til að endurnýja þær. Sá tími er löngu liðinn.

Eina vonin er líklega sú að bátinn reki vélarvana við yfirborð sjávar og að áhöfninni hafi ekki tekist að ná sambandi við umheiminn vegna rafmagnsleysis.

Þá má ekki gleyma því að kafbátar þola aðeins ákveðinn þrýsting þegar þeir kafa. Fari þeir undir 600-1.000 metra er líklegast að þeir kremjist undan honum. Þar sem ekki er með fullu vitað hvar kafbátinn er að finna gæti hann verið á allt frá 300 til 3.000 metra dýpi. 

Ástvinir áhafnarinnar bíða enn fregna. Þeir eru margir búnir að …
Ástvinir áhafnarinnar bíða enn fregna. Þeir eru margir búnir að missa vonina um að einhver sé enn á lífi um borð. AFP

Áhöfn San Juan var í þjálfunarleiðangri og á leið frá nyrsta odda Argentínu til heimahafnar í Mar del Plata, suður af Buenos Aires. 

En hvernig getur það gerst á 21. öldinni, þegar tækninni hefur fleygt fram, að kafbátur með 44 menn innanborðs hverfi fyrirvaralaust?

Skýringin felst í raun í hlutverki kafbáta: Þeir eiga ekki að sjást né heyrast. Þeir eiga að geta siglt um án þess að nokkur verði þeirra var. Þeir eiga að geta dulist „óvininum“. 

Einmitt þessi „náttúra“ þeirra verður til þess að komi eitthvað uppá er oft nær ógerningur að finna þá á skömmum tíma. 

Þurfa að „fnæsa“

Kafbátar þurfa sumsé að koma reglu­lega upp á yf­ir­borðið til að „fnæsa“, þ.e. að end­ur­nýja súr­efn­is­birgðir sín­ar. Það þurfa þeir einnig að gera til að kom­ast í sam­band við um­heim­inn. Slíkt er yf­ir­leitt gert einu sinni á hverj­um sól­ar­hring, að sögn sér­fræðings CNN.

Þá geta þeir sokkið djúpt á hafsbotninn sem gerir leit að þeim enn erfiðari og tímafrekari. Það er fyrst síðustu ár og áratugi sem flök kafbáta sem sukku í síðari heimsstyrjöldinni hafa verið að koma í leitirnar. Þau hafa fundist með hátæknilegri skönnun hafsbotnsins, m.a. þegar verið er að leita að olíu.

Það er svo ýmislegt sem getur komið upp á um borð. Tæknin sem notuð er til að kafbátar geti kafað og svo komist aftur upp á yfirborðið er í raun gömul. Um er að ræða flókið kerfi af vatnsleiðslum og tönkum sem ýmist dæla vatni inn í ákveðin rými bátsins eða tæma þau, allt ef því hvort báturinn er á upp- eða niðurleið. Þetta má svo ekki gerast of hratt, svo heilsu áhafnarinnar sé ekki ógnað. Stýritækin eru því einnig mikilvæg og komi upp straumleysi flækjast málin.

Á kafbátum eru engir gluggar. Þeim er einfaldlega stýrt með sónartækni í flestum tilvikum og stuðst er við þar til gerð sjókort. Þeim er oftast hægt að treysta en þó ekki alltaf. Það var til dæmis raunin er bandaríski kafbáturinn San Fransisco sigldi á neðansjávarfjall árið 2005 á 30 hnúta hraða. Áhöfnin slasaðist og einn úr henni lést.

Svona lítur björgunarhylki sem hægt er að sökkva niður að …
Svona lítur björgunarhylki sem hægt er að sökkva niður að kafbátum út. AFP

San Juan er dísilknúinn en margir kafbátar í dag eru knúnir kjarnorku. Hann er yfir 30 ára gamall en hefur fengið reglulegt viðhald og voru miklar endurbætur gerðar á honum fyrir fimm árum. 

Átta rafgeymar eru um borð og slíkir geymar hafa í gegnum tíðina valdið slysum. Þeir geta bæði lekið og sprungið. Mesta hættan er líklega sú að eldur kvikni um borð. Slíkt er eðli málsins samkvæmt erfitt að fást við þegar bátarnir eru neðansjávar. 

Það er þó ekki þannig að kafbátar séu almennt taldir hættuleg farartæki. Slys eru fátíð en þegar þau verða eru þau yfirleitt alvarleg og mannskæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert