Páfinn nefndi rohingja ekki á nafn

Frans páfi talaði um réttindi og réttlæti í ávarpi sínu í Búrma í dag þar sem hann er nú í heimsókn, fyrstur allra páfa. Hann nefndi rohingja ekki á nafn eða ásakanir um þjóðernishreinsanir hersins í landinu sem hafa hrakið hundruð þúsunda þeirra á flótta.

Er páfinn flutti ávarp sitt í Naypyidaw í dag stóð leiðtogi landsins, Aung San Suu Kyi, einnig á sviðinu.

Páfi sagði að friður næðist aðeins með „réttlæti og virðingu fyrir mannréttindum“ og kallaði eftir virðingu fyrir „öllum þjóðarbrotum“.

Hins vegar nefndi hann rohingja ekki beinlínis á nafn en sá minnihlutahópur hefur sætt ofsóknum í Búrma í áraraðir. 

Frans páfi hefur þó rætt um aðstæður rohingja á öðrum vettvangi. Mannréttindahópar höfðu hvatt hann til að nota tækifærið í heimsókn sinni til að taka málið upp við þá sem hann hitti. 

Friðarverðlaunahafinn Suu Kyi hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að tala ekki máli rohingja og minnast varla á þá í ræðum sínum eða viðtölum. 

Í ræðu sinni í dag minntist hún ekki á þá sérstaklega en sagði að land sitt væri að glíma við flókin mál í kjölfar fimm áratuga stjórnar hersins. 

Frans páfi og Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, fluttu …
Frans páfi og Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, fluttu ávörp í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert